Erlent

Árásarmaðurinn öskraði „Hvar er Nancy?“

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar við heimili Pelosi-hjóna í San Francisco.
Lögregluþjónar við heimili Pelosi-hjóna í San Francisco. AP/Eric Risberg

Maðurinn sem braust inn á heimili Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í nótt og réðst á eiginmann hennar með hamri var að leita að henni. Heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs segja manninn hafa öskrað: „Hvar er Nancy?“ þegar hann réðst á Paul Pelosi. 

Hinn 82 ára gamli Paul Pelosi særðist á höfði og líkama en sagður hafa sloppið við breinbrot og er talinn muna ná sér að fullu. Árásarmaðurinn var handtekinn á vettvangi.

Sjá einnig: Brotist inn á heimili Pelosi og ráðist á eiginmann hennar

AP fréttaveitan segir árásina vekja upp minningar um árásina á þinghúsið þann 6. janúar 2021. Þá hafi stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi forseta, sem reyndu að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020, leitað að Nancy Pelosi í þinghúsinu eftir þau ruddust þar inn. 

Batakveðjur og fordæmingar á árásinni hafa borist frá bandarískum stjórnmálamönnum. Þeirra á meðal eru Joe Biden, forseti, og Chuck Schumer, forseti öldungadeildarinnar, og Mitch McConnell, leiðtogir Repúblikana í öldungadeildinni.

Þinglögregla Bandaríkjanna sér um að vernda háttsetta þingmenn. Þingmenn hafa fengið fjárveitingar til að byggja upp öryggiskerfi á heimilum sínum. Þeir hafa þó viljað frekari öryggisgæslu vegna mikillar fjölgunar hótana og ógnana gegn þingmönnum.

Í fyrra rannsakaði þinglögreglan um 9.600 hótanir gegn þingmönnum og þá hafa þingmenn orðið fyrir alvarlegum árásum. Má nefna það þegar Gabrielle Giffords var skotin í höfuðið árið 2011 og Steve Scalise var skotinn í mjöðmina árið 2017. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×