Handbolti

FH, Fram og Afturelding á leið í 16-liða úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld. Vísir/Vilhelm

FH, Fram og Afturelding eru á leið í 16-liða úrslit bikarkeppni HSÍ eftir sigra sína í kvöld. FH vann nauman þriggja marka sigur gegn Gróttu í Olís-deildarslag, 25-22, Fram vann Grill66-deildarlið Fjölnis á útivelli, 29-33, og Afturelding vann öruggan tíu marka sigur gegn Grill66-deildarliði Þórs frá Akureyri, 21-31.

Voru þetta einu þrír leikirnir í fyrstu umferð bikarkeppninnar, en 19 lið voru skráð til leiks og því munu 16-liða úrslit taka við.

Mosfellingar gerðu góða ferð norður á Akureyri þar sem Gestur Ólafur Ingvarsson var markahæsti maður gestanna með sex mörk og Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fimm. Í liði heimamanna voru Kostadin Petrov og Arnór Þorri Þorsteinsson markahæstir með sex mörk hvor.

Í leik Fjölnis og Fram var Ólafur Brim Stefánsson markahæstur í liði Framara með sjö mörk, en í liði Fjölnis var Björgvin Páll Rúnarsson atkvæðamestur, einnig með sjö.

Að lokum heimsóttu Gróttumenn FH-inga í eina Olís-deildarslag umferðarinnar þar sem FH-ingar höfðu að lokum betur, 25-22.

Ásbjörn Friðriksson var eins og svo oft áður markahæstur í liði FH-inga með átta mörk, en í liði Gróttu skoraði Andri Þór Helgason fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×