Erlent

Setti bók­stafinn Z á bílinn og fékk hálfa milljón í sekt

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Bókstafurinn hefur verið talinn til marks um stuðning við innrás Rússa í Úkraínu.
Bókstafurinn hefur verið talinn til marks um stuðning við innrás Rússa í Úkraínu. EPA-EFE/YURI KOCHETKOV

Manni í Þýskalandi hefur verið gert að greiða fjögur þúsund evrur, eða rúmar 570 þúsund krónur, í sekt fyrir að hafa sett bókstafinn Z á bílinn sinn. Merkið hefur verið notað til marks um stuðning við innrás Rússa í Úkraínu. Maðurinn hefur áfrýjað.

Dómstóll í Hamborg sektaði 62 ára gamla manninn í dag. Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi límt hvítt A4 blað með bókstafnum Z, í bláum lit, á afturrúðu bíls síns. 

Með því taldi saksóknari manninn hafa haft í hyggju að lýsa yfir stuðningi við innrás Rússa. Deutsche Welle.

Í upphafi innrásarinnar var bókstafurinn Z áberandi á rússneskum skriðdrekum og brynvörðum bílum. Rússar hafa notað bókstafinn til marks um stuðning við innrásina; til að mynda sem merki á fötum eða á auglýsingaskiltum í landinu.

Dómstóllinn taldi athæfi mannsins refsivert enda brjóti stríð Rússa gegn alþjóðalögum. Samkvæmt landslögum sé bannað að styðja opinberlega athæfi sem talin eru refsiverð og raskað gætu almannafriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×