Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Njarðvík 79-64 | Haukakonur magnaðar gegn meisturunum Siggeir Ævarsson skrifar 23. október 2022 22:50 Haukar-Njarðvík. Subway deild kvenna. Vetur 2022-2023. Körfubolti. Vísir/Bára Haukar og Njarðvík mættust í Ólafssal í kvöld en bæði lið hafa farið vel af stað í Subway-deild kvenna í haust og höfðu fyrir kvöldið bæði aðeins tapað einum leik en unnið fjóra. Njarðvíkingar höfðu ekki slegið feilpúst síðan í fyrstu umferð og var útlit fyrir í byrjun að í kvöld yrði engin breyting á. Njarðvíkingar komust í 2-14 þar sem þristunum hreinlega rigndi yfir vörn Haukanna, þar af Raquel Laneiro með þrjá í röð. Bjarni Magnússon þjálfari Hauka átti engan annan kost í stöðunni en að taka leikhlé strax í blábyrjun sem bar árangur. Við tók 7-0 kafli frá Haukum og þetta var aftur orðinn leikur. Njarðvíkingar voru þó hvergi nærri hættir og Haukar vörðu megninu af fyrri hálfleik í að elta. Eva Margrét Kristjánsdóttir hélt Haukum inni í þessum leik, nánast uppá sitt einsdæmi á köflum, en hún var komin með 13 stig í hálfleik og 9 fráköst. Staðan í hálfleik 30-35 gestunum í vil. Í seinni hálfleik mættu Haukarnir miklu ákveðnari til leiks og byggðu fljótlega upp gott forskot. Þær völtuðu yfir þriðja leikhlutann 27-8 og fóru þar langleiðina með að tryggja sér sigurinn. Mikið mæddi á Aliyuh Collier sóknarmegin hjá Njarðvík, en Haukarnir brutu alls 13 sinnum á henni í leiknum, en aldrei oftar en einu sinni á öðrum leikmönnum. Lavina Da Silva var ekki með Njarðvíkingum í kvöld vegna meiðsla sem minnkaði ekki álagið á Collier, gegn hávöxnu liði Haukanna. Kannski voru Njarðvíkingar búnar að gefa upp alla von um sigur fyrir þriðja leikhlutann, þær gerðu sig í það minnsta aldrei mjög líklegar til að taka áhlaup á Haukana sem sigldu sigrinum nokkuð þægilega heim að lokum eftir nokkuð rysjótta byrjun. Lokatölur 79-64. Af hverju unnu Haukar? Þær yfirspiluðu gestina í þriðja leikhluta. Í stað þess að brotna í byrjun þá komu þær sterkar til baka, og náðu í raun að brjóta niður allan vilja hjá Njarðvíkingum og uppskáru eftir því. Hverjar stóðu upp úr? Hjá Haukum voru margir leikmenn að spila vel í kvöld. Eva Margrét Kristjánsdóttir dró vagninn sóknarlega og endaði með 19 stig og 14 fráköst. Varnarmegin stóð Elísabeth Ýr Ægisdóttir í ströngu við að dekka Aliyuh Collier, en þær Eva og Elísabeth reyndust Njarðvíkingum mjög erfiðar við að eiga í teignum. Hjá Njarðvík var Aliyah Collier í algjörum sérflokki sóknarlega, skoraði 28 stig og bætti við 16 fráköstum og 6 stoðsendingum. Raquel Laneiro fór geyst af stað og setti þrjá þrista í jafnmörgum tilraunum, en bætti svo bara einum enn í sarpinn í 7 tilraunum til viðbótar. Hvað gekk illa? Njarðvíkingum gekk illa að brjótast í gegnum vörn Hauka, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Aliyah var í mjög strangri gæslu og komst glettilega sjaldan á vítalínuna miðað við hversu oft var brotið á henni. Skotnýting Njarðvíkinga endaði í 31% heilt yfir, sem verður að teljast í lægra lagi. Hvað gerist næst? Njarðvíkingar hafa þá unnið 5 leiki í röð og aðeins tapað einum í vetur. Þær eiga leik næst í Ljónagryfjunni á miðvikudaginn þar sem þær taka á móti Valskonum. Sama kvöld sækja Haukar Blika heima í Smárann. Vorum bara frekar glataðar í fyrri hálfleik Eva Margrét Kristjánsdóttir.Vísir/Bára Eva Margrét Kristjánsdóttir fór fyrir sínu liði í kvöld í stigaskori, en hún talaði hreina íslensku í viðtali eftir leik þegar hún fór yfir frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik „Við fannst við vera allan fyrri hálfleikinn að elta. Þó við værum kannski í jöfnum leik þá vorum við bara frekar glataðar. Svo að ég er bara mjög ánægð með það hvernig við komum til baka.“ Eva vildi þó ekki gera mikið úr eigin frammistöðu og líkt og Bjarni þjálfari liðsins sagði hún að það hefðu margir leikmenn lagt í púkkið og skapað þennan sigur saman. „Þær voru að finna mig undir körfunni og ég fann mig í skotunum mínum. Svo fóru aðrar að finna sig í seinni hálfleik.“ Haukar tóku hart á Aliyuh Collier í kvöld og brutu alls þrettán sinnum á þetta. Var það eitthvað sem þær lögðu upp með, að stoppa hana áður en hún kæmist af stað og í takt við leikinn? „Ég var ekkert sátt við alla dómana sem hún fékk, en hún er náttúrulega bara ótrúlega góð en mér fannst við gera vel.“ Meiðslalistinn lengdist hjá Haukum í kvöld þegar Keira Robinson bættist á hann. Eva sagðist þó ekki hafa miklar áhyggjur af henni og framhaldinu. „Keira er ekkert meidd. Hún þurfti bara smá pásu í dag, verður mætt í næsta leik.“ „Ég þarf að taka það á mig að finna ekki betri lausnir sóknarlega en leikmannahópurinn þarf að taka það á sig að brotna“ Aðalsmerki Njarðvíkinga síðustu misseri hefur verið sterk vörn þar sem þær ganga vasklega fram líkamlega og láta finna fyrir sér við hvert tækifæri. Það má segja að Njarðvíkingar hafi aðeins fengið að smakka á eigin meðali í kvöld, og gat Rúnar Ingi þjálfari þeirra tekið undir þá greiningu. „Já það má segja það. Þær gerðu mjög vel og þær lausnir sem við vorum að reyna og töluðum um að gera, fyrir leikinn og í leikhléum, þær gengu bara ekki nægilega vel upp. Við vorum ekki nógu hreyfanlegar af boltanum. Við vorum líka að leita að þriggjastiga skotinu í hvert einasta skipti í staðinn fyrir að láta boltann fljóta aðeins meira. En Haukarnir gerðu bara ótrúlega vel varnarlega og við áttum erfitt með að finna körfuna og finna glufur á þeirra vörn. Við Lalli þurfum bara að taka það á okkur að koma okkar leikmönnum í nægilega góðar stöður þannig að þeim líði vel á vellinum og taki góðar ákvarðnir.“ Rúnar Ingi.Vísir/Bára Njarðvíkingar hljóta að hafa saknað Lavinu í kvöld, gegn hávöxnu liði Hauka? „Að sjálfsögðu. Og eins og þær spila vörnina í dag þá er gott að geta komið boltanum inn í teig á hávaxinn leikmannn sem vill fá boltann en ekki bara á Collier sem er að reyna að gera allt, sem varð bara stundum of mikið. En við söknum hennar, við erum búnar að gera vel í síðustu tveimur leikjum með þetta lið á vellinum. En núna mættum við alvöru vörn og þá kom á daginn að við erum ekki nógu sterkar á svellinu og það er gott stöðutjékk til að fá núna í október.“ Haukarnir lögðu greinilega mikla áherslu á að stoppa Aliyuh Collier, eins og svo sem flest lið, og Rúnar sagði að það hefði ekki komið honum á óvart. „Ég myndi gera það líka, svo það kemur svo sem ekki á óvart. En þær voru mjög „physical“ og voru að koma grimmar í tvídekkanir. Við leystum það kannski tvisvar mjög vel í fyrri hálfleik þar sem við vorum að fá snögga sendingu. Við vissum alveg af þessu og vorum búnar að skoða það fyrir leikinn hvernig við ætluðum að leysa þetta. En þegar við komum inn í leikinn og Haukarnir voru kannski með „mómentum“ þeirra megin, þá þurfum við að vera sterkari andlega. Ég þarf að taka það á mig að finna ekki betri lausnir sóknarlega en leikmannahópurinn þarf að taka það á sig að brotna og vera ekki sterkari í hausnum.“ Subway-deild kvenna Haukar UMF Njarðvík
Haukar og Njarðvík mættust í Ólafssal í kvöld en bæði lið hafa farið vel af stað í Subway-deild kvenna í haust og höfðu fyrir kvöldið bæði aðeins tapað einum leik en unnið fjóra. Njarðvíkingar höfðu ekki slegið feilpúst síðan í fyrstu umferð og var útlit fyrir í byrjun að í kvöld yrði engin breyting á. Njarðvíkingar komust í 2-14 þar sem þristunum hreinlega rigndi yfir vörn Haukanna, þar af Raquel Laneiro með þrjá í röð. Bjarni Magnússon þjálfari Hauka átti engan annan kost í stöðunni en að taka leikhlé strax í blábyrjun sem bar árangur. Við tók 7-0 kafli frá Haukum og þetta var aftur orðinn leikur. Njarðvíkingar voru þó hvergi nærri hættir og Haukar vörðu megninu af fyrri hálfleik í að elta. Eva Margrét Kristjánsdóttir hélt Haukum inni í þessum leik, nánast uppá sitt einsdæmi á köflum, en hún var komin með 13 stig í hálfleik og 9 fráköst. Staðan í hálfleik 30-35 gestunum í vil. Í seinni hálfleik mættu Haukarnir miklu ákveðnari til leiks og byggðu fljótlega upp gott forskot. Þær völtuðu yfir þriðja leikhlutann 27-8 og fóru þar langleiðina með að tryggja sér sigurinn. Mikið mæddi á Aliyuh Collier sóknarmegin hjá Njarðvík, en Haukarnir brutu alls 13 sinnum á henni í leiknum, en aldrei oftar en einu sinni á öðrum leikmönnum. Lavina Da Silva var ekki með Njarðvíkingum í kvöld vegna meiðsla sem minnkaði ekki álagið á Collier, gegn hávöxnu liði Haukanna. Kannski voru Njarðvíkingar búnar að gefa upp alla von um sigur fyrir þriðja leikhlutann, þær gerðu sig í það minnsta aldrei mjög líklegar til að taka áhlaup á Haukana sem sigldu sigrinum nokkuð þægilega heim að lokum eftir nokkuð rysjótta byrjun. Lokatölur 79-64. Af hverju unnu Haukar? Þær yfirspiluðu gestina í þriðja leikhluta. Í stað þess að brotna í byrjun þá komu þær sterkar til baka, og náðu í raun að brjóta niður allan vilja hjá Njarðvíkingum og uppskáru eftir því. Hverjar stóðu upp úr? Hjá Haukum voru margir leikmenn að spila vel í kvöld. Eva Margrét Kristjánsdóttir dró vagninn sóknarlega og endaði með 19 stig og 14 fráköst. Varnarmegin stóð Elísabeth Ýr Ægisdóttir í ströngu við að dekka Aliyuh Collier, en þær Eva og Elísabeth reyndust Njarðvíkingum mjög erfiðar við að eiga í teignum. Hjá Njarðvík var Aliyah Collier í algjörum sérflokki sóknarlega, skoraði 28 stig og bætti við 16 fráköstum og 6 stoðsendingum. Raquel Laneiro fór geyst af stað og setti þrjá þrista í jafnmörgum tilraunum, en bætti svo bara einum enn í sarpinn í 7 tilraunum til viðbótar. Hvað gekk illa? Njarðvíkingum gekk illa að brjótast í gegnum vörn Hauka, þá sérstaklega í seinni hálfleik. Aliyah var í mjög strangri gæslu og komst glettilega sjaldan á vítalínuna miðað við hversu oft var brotið á henni. Skotnýting Njarðvíkinga endaði í 31% heilt yfir, sem verður að teljast í lægra lagi. Hvað gerist næst? Njarðvíkingar hafa þá unnið 5 leiki í röð og aðeins tapað einum í vetur. Þær eiga leik næst í Ljónagryfjunni á miðvikudaginn þar sem þær taka á móti Valskonum. Sama kvöld sækja Haukar Blika heima í Smárann. Vorum bara frekar glataðar í fyrri hálfleik Eva Margrét Kristjánsdóttir.Vísir/Bára Eva Margrét Kristjánsdóttir fór fyrir sínu liði í kvöld í stigaskori, en hún talaði hreina íslensku í viðtali eftir leik þegar hún fór yfir frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik „Við fannst við vera allan fyrri hálfleikinn að elta. Þó við værum kannski í jöfnum leik þá vorum við bara frekar glataðar. Svo að ég er bara mjög ánægð með það hvernig við komum til baka.“ Eva vildi þó ekki gera mikið úr eigin frammistöðu og líkt og Bjarni þjálfari liðsins sagði hún að það hefðu margir leikmenn lagt í púkkið og skapað þennan sigur saman. „Þær voru að finna mig undir körfunni og ég fann mig í skotunum mínum. Svo fóru aðrar að finna sig í seinni hálfleik.“ Haukar tóku hart á Aliyuh Collier í kvöld og brutu alls þrettán sinnum á þetta. Var það eitthvað sem þær lögðu upp með, að stoppa hana áður en hún kæmist af stað og í takt við leikinn? „Ég var ekkert sátt við alla dómana sem hún fékk, en hún er náttúrulega bara ótrúlega góð en mér fannst við gera vel.“ Meiðslalistinn lengdist hjá Haukum í kvöld þegar Keira Robinson bættist á hann. Eva sagðist þó ekki hafa miklar áhyggjur af henni og framhaldinu. „Keira er ekkert meidd. Hún þurfti bara smá pásu í dag, verður mætt í næsta leik.“ „Ég þarf að taka það á mig að finna ekki betri lausnir sóknarlega en leikmannahópurinn þarf að taka það á sig að brotna“ Aðalsmerki Njarðvíkinga síðustu misseri hefur verið sterk vörn þar sem þær ganga vasklega fram líkamlega og láta finna fyrir sér við hvert tækifæri. Það má segja að Njarðvíkingar hafi aðeins fengið að smakka á eigin meðali í kvöld, og gat Rúnar Ingi þjálfari þeirra tekið undir þá greiningu. „Já það má segja það. Þær gerðu mjög vel og þær lausnir sem við vorum að reyna og töluðum um að gera, fyrir leikinn og í leikhléum, þær gengu bara ekki nægilega vel upp. Við vorum ekki nógu hreyfanlegar af boltanum. Við vorum líka að leita að þriggjastiga skotinu í hvert einasta skipti í staðinn fyrir að láta boltann fljóta aðeins meira. En Haukarnir gerðu bara ótrúlega vel varnarlega og við áttum erfitt með að finna körfuna og finna glufur á þeirra vörn. Við Lalli þurfum bara að taka það á okkur að koma okkar leikmönnum í nægilega góðar stöður þannig að þeim líði vel á vellinum og taki góðar ákvarðnir.“ Rúnar Ingi.Vísir/Bára Njarðvíkingar hljóta að hafa saknað Lavinu í kvöld, gegn hávöxnu liði Hauka? „Að sjálfsögðu. Og eins og þær spila vörnina í dag þá er gott að geta komið boltanum inn í teig á hávaxinn leikmannn sem vill fá boltann en ekki bara á Collier sem er að reyna að gera allt, sem varð bara stundum of mikið. En við söknum hennar, við erum búnar að gera vel í síðustu tveimur leikjum með þetta lið á vellinum. En núna mættum við alvöru vörn og þá kom á daginn að við erum ekki nógu sterkar á svellinu og það er gott stöðutjékk til að fá núna í október.“ Haukarnir lögðu greinilega mikla áherslu á að stoppa Aliyuh Collier, eins og svo sem flest lið, og Rúnar sagði að það hefði ekki komið honum á óvart. „Ég myndi gera það líka, svo það kemur svo sem ekki á óvart. En þær voru mjög „physical“ og voru að koma grimmar í tvídekkanir. Við leystum það kannski tvisvar mjög vel í fyrri hálfleik þar sem við vorum að fá snögga sendingu. Við vissum alveg af þessu og vorum búnar að skoða það fyrir leikinn hvernig við ætluðum að leysa þetta. En þegar við komum inn í leikinn og Haukarnir voru kannski með „mómentum“ þeirra megin, þá þurfum við að vera sterkari andlega. Ég þarf að taka það á mig að finna ekki betri lausnir sóknarlega en leikmannahópurinn þarf að taka það á sig að brotna og vera ekki sterkari í hausnum.“
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum