Lífið

Emilíana Torrini klippti sig stutt eftir á­greining við Vogu­e

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Emilíana Torrini rifjar upp myndatöku sem hún fór í hjá tískutímaritinu Vogue þegar hún var tuttugu ára gömul.
Emilíana Torrini rifjar upp myndatöku sem hún fór í hjá tískutímaritinu Vogue þegar hún var tuttugu ára gömul. Getty/Lorne Thomson

Tónlistarkonan Emilíana Torrini rifjar upp erfiða upplifun sína af myndatöku sem hún fór í hjá tískutímaritinu Vogue þegar hún var aðeins tuttugu ára gömul.

Emilíana segir frá því á Instagram síðu sinni að hún hafi átt að fara í myndatöku fyrir tímaritið og átti hún að fá tveggja blaðsíðna umfjöllun í blaðinu.

„En svo vandaðist málið þegar ég vildi ekki klæðast þeim kjólum sem þau höfðu valið á mig,“ rifjar Emilíana upp.

Leið eins og gleðikonu

Vogue vildi að Emilíana myndi klæðast silfurlituðum, afar stuttum kjól og himinháum pinnahælum. Þá átti hún að vera með slöngulokka eins og voru mikið í tísku á þeim tíma.

„Mér leið eins og einhverri lúxus gleðikonu úti í skógi. Alveg frábært lúkk, en bara ekki fyrir mig. Ég var frekar týpan sem var í gallabuxum og strigaskóm,“ segir hún.

Þegar Emilíana mótmælti hugmyndum þessa stærsta tískutímarits í heimi segir hún að umboðsmenn hennar hafi fengið ófá símtöl frá útgáfufyrirtækinu.

Sögð erfið og dekruð

„Það voru lagðar fram hótanir. Það var sagt að ég væri erfið og dekruð og að ég gerði mér ekki grein fyrir því hve heppin ég væri.“

Hún segist aftur á móti hafa gert sér fyllilega grein fyrir því hve heppin hún væri. Hún hefði verið algjörlega uppi með sér og hlakkað til í margar vikur fram að þessu.

„Þetta var hræðilegt,“ segir Emilíana sem leitaði huggunar hjá hárgreiðslumanni á settinu.

„Ég var svo pirruð og reið eftir það sem ég upplifði að hefðu verið margir klukkutímar af rifrildi og spennu. Ég sagði honum að klippa hárið mitt eins og Jim Carrey í Pet Detective.“

Hér má sjá Jim Carrey í myndinni Ace Venture: Pet Detective sem var innblástur klippingarinnar sem Emilíana bað um. IMDB

Bað engan um leyfi

Hárgreiðslumaðurinn neitaði og sagði að þau þyrftu að biðja um leyfi.

„Biðja um leyfi? Hvern þurfum við að biðja um leyfi? Þetta er mitt hár,“ sagði Emilíana og læsti hurðinni.

Hárgreiðslumaðurinn hlýddi skipun Emilíönu, þótt hann hafi verið afar stressaður. Þegar Emilíana kom út úr herberginu segir hún að nokkrir hafi tekið trylling.

„En ég var hæstánægð. Þessi tveggja blaðsíðna umfjöllun varð að hálfri blaðsíðu en ég var glöð.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.