Innlent

Reyndu að smygla um tvö þúsund OxyContin-töflum í nær­buxunum

Atli Ísleifsson skrifar
Tollverðir fundu efnin við leit á mönnunum við komuna til landsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Tollverðir fundu efnin við leit á mönnunum við komuna til landsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo pólska karlmenn í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla samtals 1.914 töflum af ávana- og fíknilyfinu OxyContin, 80 mg, með flugi til landsins í maí síðastliðinn. Mennirnir fluttu töflurnar í nærbuxum sínum.

Í ákæru kemur fram að mennirnir hafi komið með landsins með flugi frá Varsjá í Póllandi þann 4. maí síðastliðinn og að þeir hafi flutt með sér töflurnar sem ætlaðar voru til söludreifingar. Var annar mannanna með 670 töflur í nærbuxum sínum en hinn með 1.244 töflur.

Tollverðir fundu efnin við leit á mönnunum við komuna til landsins.

Mennirnir mættu ekki við þingfestingu, en í dómi segir að mennirnir hafi ekki áður orðið uppvísir að refsiverði háttsemi svo kunnugt sé.

Dómari mat það sem svo að hæfileg refsing yfir mönnum væri sex mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×