Enski boltinn

Bannað að mæta í Arsenal fötum á leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted í baráttunni við Gabriel Jesus í fyrri leik liðanna í London.
Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted í baráttunni við Gabriel Jesus í fyrri leik liðanna í London. Getty/Nick Potts

Alfons Sampsted og félagar í Bodö/Glimt taka í kvöld á móti toppliði ensku úrvalsdeildarinnar þegar Arsenal liðið kemur í heimsókn norður til Bodö.

Arsenal vann fyrri leikinn 3-0 og hefur unnið átta af níu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Heimamenn í Bodö/Glimt hafa greinilega smá áhyggjur af því að Arsenal stuðningsmennirnir birtist í stúku heimamanna miðað við þau skilaboð sem gefin voru út fyrir leikinn.

Þar kemur fram að norska félagið mun ekki leyfa áhorfendum í stúku heimaliðsins að klæðast fötum tengdum Arsenal.

Á heimasíðu norska félagsins er þessi tilkynning:

„Það eru margir stuðningsmenn Arsenal í Noregi og margir halda bæði með Bodö og Arsenal. Af þeim sökum er vert að vekja athygli á því að Arsenal föt eru aðeins leyfð á stuðningsmannasvæði útiliðsins,“ segir í þessari sérstöku tilkynningu.

Leikur Bodö/Glimtog Arsenal hefst klukkan 16.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×