Innlent

Kortleggja eignatengsl í sjávarútvegi

Samúel Karl Ólason skrifar
Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins eiga að liggja fyrir í lok næsta árs.
Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins eiga að liggja fyrir í lok næsta árs. Vísir/Vilhelm

Forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins hafa ákveðið að kortleggja stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja. Er það liður í heildarstefnumótun í sjávarútvegi á vegum matvælaráðuneytisins.

Meðal annars á að skoða sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga eða leigja fiskiskip með aflahlutdeildir með ákveðnum stærðarmörkum. Þau mörk hafa ekki verið ákveðin enn, samkvæmt tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Einnig á kortlagningin að varpa ljósi á eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum fyrirtækjum hér á landi, hvort sem þau eru einnig í sjávarútvegi eða ekki.

Þá á að varpa ljósi á áhrifavald eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í tengslum við atkvæðisrétt og stjórnarsetu í fyrirtækjum. Kortlagningin á þar að auki að auka gagnsæi um stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi.

Niðurstöður þessarar skoðunar verða opinberaðar í skýrslu sem gert er ráð fyrir að verði birt undir lok næsta árs.

„Fyrir liggur að yfirsýn og þekking á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi hefur mikla þýðingu í starfsemi fleiri stofnana en Samkeppniseftirlitsins, svo sem Fiskistofu, Seðlabanka Íslands og Skattsins. Samhliða athuguninni er því stefnt að auknu samstarfi þessara stofnana, en í því felst að umgjörð um eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi verði styrkt, rutt verði úr vegi mögulegum hindrunum í samstarfi hlutaðeigandi stofnana og skilvirkni í stjórnsýslu á þessu sviði aukin,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins.

Þar segir að samstarf stofnana hjálpi starfsmönnum þeirra að sinna lögbundnum skyldum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×