Viðskipti innlent

Hlynur nýr fram­kvæmda­stjóri KPMG á Ís­landi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hlynur Sigurðsson er nýr framkvæmdastjóri KPMG.
Hlynur Sigurðsson er nýr framkvæmdastjóri KPMG.

Hlynur Sigurðsson hefur tekið við starfi Framkvæmdastjóra KPMG á Íslandi. Hlynur hefur starfað hjá KPMG í 26 ár og á þeim tíma sinnt ýmsum störfum innan félagsins.

Hlynur tekur við af Jóni S. Helgasyni sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri síðustu tíu ár en Jón er einn eigenda fyrirtækisins. Hann mun halda áfram að starfa hjá fyrirtækinu.

Hlynur er menntaður viðskiptafræðingur og er löggiltur endurskoðandi. Hann sat í stjórn KPMG árin 2016-2021 en árið 2021 var hann stjórnarformaður. Undanfarin ár hefur Hlynur einnig leitt og mótað þjónustu KPMG á Íslandi við sprota- og vaxtarfyrirtæki.

„Það er mikill heiður að fá að leiða KPMG á Íslandi enda býr fyrirtækið að samhentum og hæfum hópi yfir 300 sérfræðinga um land allt. KPMG er í fremstu röð alhliða ráðgjafarfyrirtækja á Íslandi og við ætlum að halda áfram að vera leiðandi afl og vaxa enn frekar,“ er haft eftir Hlyni í tilkynningu.

Hrafnhildur Helgadóttir, stjórnarformaður KPMG, þakkar Jóni fyrir hans frábæra starf og býður Hlyn velkominn.

„Hann hefur starfað hjá félaginu í mörg ár og hans góðu kostir, reynsla og faglega þekking munu án efa gagnast félaginu afar vel á komandi árum,“ segir Hrafnhildur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×