Innlent

Kölluðu rúss­neska sendi­herrann á teppið vegna inn­limunarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg.
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðuneytið kallaði rússneska sendiherrann á Íslandi til fundar til að lýsa fordæmingu sinni á tilraun rússneskra stjórnvalda til þess að innlima fjögur úkraínsk héruð í dag. Íslensk stjórnvöld ætla ekki að viðurkenna héruðin sem hluta af Rússlandi.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir innlimun Donetsk, Luhansk, Kherson og Saporisjía í Úkraínu á föstudag. Það gerði hann í kjölfar ólögmætra atkvæðagreiðslna sem leppstjórar Rússa í hernumdu héruðunum héldu fyrr í vikunni.

Vestræn ríki hafa lýst atkvæðagreiðslunum sem falsi og ætla ekki að viðurkenna yfirráð Rússa yfir þeim. Í sama streng tók íslenska utanríkisráðuneytið á fundinum með rússneska sendiherranum, að því er kemur fram í tísti frá ráðuneytinu.

„Ísland kallaði sendiherra Rússland á sinn fund í dag til að koma á framfæri sinni sterkustu fordæmingu á tilraunum til að innlima landsvæði Úkraínu og gerviatkvæðagreiðslum sem voru hannaðar í algerri andstöðu við alþjóðalög,“ segir í tístinu á enskumælandi reikningi ráðuneytisins.

Ísland er þar sagt aldrei munu viðurkenna að neinn hluti héraðanna tilheyri Rússlandi.


Tengdar fréttir

Lyman sýni að innlimunin sé farsi

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að undanhald Rússa frá Lyman sýni að tilraunir Rússa til að innlima úkraínskt landsvæði væri „algjör farsi“. Úkraínumenn eru sagðir hafa elt þær rússnesku hersveitir sem hörfuðu og munu bardagar geisa á ný, austur af Lyman.

Bölsótaðist út í Vesturlönd

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að þau héruð Úkraínu sem hann innlimaði einhliða og ólöglega í rússneska sambandsríkið í dag tilheyri Rússlandi. Þau hafi tilheyrt rússneska keisaraveldinu og Sovétríkin hafi rekið Þjóðverja þaðan í seinni heimsstyrjöldinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×