Fótbolti

Grétar Rafn orðaður við PSV

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grétar Rafn starfaði stuttlega fyrir KSÍ en hóf störf hjá Tottenham Hotspur 1. júlí síðastliðinn.
Grétar Rafn starfaði stuttlega fyrir KSÍ en hóf störf hjá Tottenham Hotspur 1. júlí síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Grétar Rafn Steinsson er orðaður við starf tæknilegs ráðgjafa hjá PSV sem leikur í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Grétar Rafn starfar í dag fyrir Tottenham Hotspur á Englandi.

Grétar Rafn þekkir vel til Marcel Brands, yfirmann knattspyrnumála, hjá PSV en þeir störfuðu saman hjá Everton frá 2018 til 2021. Það er eflaust ástæðan fyrir því að hollenski miðillinn Voetbal International tengdi Siglfirðinginn við mögulegt starf hjá PSV.

Í dag er hinn fertugi Grétar Rafn hægri hönd Fabio Paratici, yfirmanns knattspyrnumála hjá Tottenham, en hann tók við starfinu í sumar eftir að hafa unnið fyrir Knattspyrnusamband Íslands um stund.

Grétar Rafn lék á sínum tíma með Young Boys í Sviss, AZ Alkmaar í Hollandi, Bolton Wanderers á Englandi og Kayserispor í Tyrklandi. Þá lék hann 46 A-landsleiki á árunum 2022 til 2012. Eftir að ferlinum lauk starfaði hann um stund fyrir AZ áður en hann varð yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×