Erlent

Tugir látnir og hundruð hand­tekin í mót­­mælunum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Konur hafa meðal annars fjarlægt höfuðklúta sína og kveikt í þeim í mótmælaskyni. Þá hafa mótmælendur hrópað á götum úti og kallað eftir dauða leiðtoga Írans, Ayatollah Ali Khamenei.
Konur hafa meðal annars fjarlægt höfuðklúta sína og kveikt í þeim í mótmælaskyni. Þá hafa mótmælendur hrópað á götum úti og kallað eftir dauða leiðtoga Írans, Ayatollah Ali Khamenei. AP

Rúmlega 450 mótmælendur hafa verið handteknir í fjölmennum mótmælum í norðurhluta Íran. 41 hafa látið lífið og mannréttindasamtök segja að fjögur börn séu meðal látinna.

Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Íran síðustu daga eftir að ung kúrdísk kona dó í haldi lögreglu. Hún hafði verið handtekin fyrir að vera ekki klædd í samræmi við strangar reglur klerkastjórnar Írans og lést í haldi lögreglu.

Hin 22 ára gamla Masha Jina Amini þótti ekki vera með höfuðklút sinn nógu þéttan á höfðinu og var því handtekin. Siðgæðislögreglan, sem sér um að framfylgja reglum klerkastjórnarinnar, segir hana hafa fengið hjartaáfall. Fjölskylda hennar segir hana hafa verið myrta og kveðst ekki hafa fengið að sjá lík Amini.

Yfirvöld í landinu hafa meðal annars lokað fyrir internetið í Íran og lögregla hefur beitt mikilli hörku. Fregnir hafa borist af því að öryggissveitir hafi skotið á mótmælendur og mannréttindasamtökin Amnesty International telja að fleiri tugir hafi látist.

„Tala látinna hækkar ört og sýnir glögglega hve miskunnarlaus yfirvöld eru. Stanslausar árásir á fólk í skjóli myrkurs.“ Segir Heba Morayef, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og vísar til lokunar yfirvalda á internetinu. Guardian greinir frá.

Þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í að torvelda mótmælendum samskipti hafa myndbönd af fólki, sem sýna lögreglu beita fólk ofbeldi í mótmælunum, verið í dreifingu á samfélagsmiðlunum Instagram og Whatsapp.


Tengdar fréttir

Afboðuðu viðtal við forseta Íran vegna slæðukröfu

Bandaríski fréttamiðillinn CNN afboðaði viðtal við Ebrahim Raisi, forseta Íran, eftir að hann krafðist þess að sjónvarpskonan Christiane Amanpour klæddist höfuðslæðu í viðtalinu. 

Saka Bandaríkin um að reyna að veikja Íran í skugga mótmæla

Yfirvöld í Íran hafa sakað bandarísk stjórnvöld um að nýta sér mótmælin sem nú standa yfir vegna dauða ungrar konu til að veikja Íran og segjast munu bregðast við. Ekkert lát er á mótmælunum sem hófust um þar síðustu helgi en á fimmta tug hafa látist samkvæmt opinberum tölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×