Greiningardeildin bendir á að útflutningur og fjárfesting sé einn helsti drifkraftur hagvaxtar á þessu ári.
„Eftir tvö erfið ár í ferðaþjónustu þar sem faraldurinn réði að stórum hluta ferðinni um komur ferðamanna hingað til lands hefur hagur greinarinnar vænkast hratt undanfarið. Erlendir ferðamenn hingað til lands voru ríflega 1,1 milljón á fyrstu átta mánuðum ársins ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Svo margt ferðafólk hefur ekki sótt landið heim á þessu tímabili frá árinu 2019. Þótt heimsóknir fólks frá Asíu séu mun færri nú en fyrir faraldur hefur fjölgun ferðafólks frá Bandaríkjunum og Evrópu bætt það upp,“ segir í umfjöllun Íslandsbanka.
2,2 milljónir ferðamanna árið 2024
Samkvæmt spánni verður fjöldi ferðamanna sem sækja landið heim um 1,7 milljón á þessu ári, en strax árið 2024 verður fjöldi ferðamanna kominn í 2,2 milljónir manna. „framhaldandi fjölgun ferðamanna er svo helsta ástæða tæplega 6% útflutningsvaxtar á næsta ári og tæplega 4% vaxtar árið 2024,“ segir greiningardeildin. Þar að auki þess gerir Íslandsbanki áfram ráð fyrir vaxandi útflutningi eldisfisks, áls og annarra iðnaðarvara ásamt auknum útflutningstekjum vegna hugverkaiðnaðar.
Áframhaldandi vöxtur fjárfestingar
Í kjölfar tveggja ára samdráttar í fjárfestingum atvinnuveganna mitt í heimsfaraldri bendir greiningardeild Íslandsbanka á sterkan viðsnúning í kjölfarið. Fjármunamyndun var að baki nærri fjórðungs vergrar landsframleiðslu á síðasta ári og hafði þá ekki verið hærri í 13 ár. „Í ár eru horfur á áframhaldandi vexti atvinnuvegafjárfestingar. Vöxturinn nam rúmum 12 prósent á fyrri helmingi ársins og hagvísar gefa tóninn um áframhaldandi vöxt út árið. Íbúðafjárfesting er einnig að taka við sér á ný eftir samdrátt á fyrri helmingi ársins og mun væntanlega mælast vöxtur í slíkri fjárfestingu á árinu í heild,“ segir Íslandsbanki.
Óverðtryggð fasteignalán styðja við miðlun peningastefnu
Verðhækkun fasteigna á landinu öllu nemur nú um 25 prósent það sem af er ári, sem er mesta hækkun innan árs frá 2006. Íslandsbanki bendir á að viðsnúningur sé hafinn á fasteignamarkaði, en lækkun mældist á fasteignaverði í ágúst síðastliðnum í fyrsta sinn frá nóvember 2019.
Fram kom í gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að fjöldi íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu hafi verið um þúsund í ágúst, sem er það mesta frá ársbyrjun 2021. „Framboð íbúða samanstendur að mestu af eldri eignum í endursölu en ekki nýbyggingum. Það gefur til kynna að markaðurinn er ekki að hægja á sér vegna aukins framboðs nýrra eigna heldur vegna minni eftirspurnar. Ástæða þess virðist fyrst og fremst aðgerðir Seðlabankans,“ segir í umfjöllun bankans.
Bendir greiningardeildin á að hærra hlutfall óverðtryggðra lána efli miðlun peningastefnu Seðlabankans. „Bæði hefur hann hækkað vexti svo um munar en einnig hert á lánaskilyrðum á nýjum íbúðalánum. Þessar aðgerðir hafa nú loks haft áhrif á markaðinn. Stór hluti íbúðalána er nú óverðtryggður sem hefur gert miðlun peningastefnunnar skilvirkari:“