Viðskipti innlent

Dregur enn úr atvinnuleysi sem mælist nú 3,1 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi síðustu mánuði.
Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi síðustu mánuði. Graf/Vinnumálastofnun

Skráð atvinnuleysi í ágúst var 3,1 prósent og minnkaði um 0,1 prósent milli mánaða. Að meðaltali voru 6.009 atvinnulausir í ágúst, 3.276 karlar og 2.733 konur. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 5,3 prósent og næst mest á höfuðborgarsvæðinu, 3,4 prósent.

„Atvinnuleysi er lægra meðal kvenna en karla á þremur svæðum, á Vestfjörðum þar sem það var 1,7% meðal karla og 1,3% meðal kvenna, á Norðurlandi vestra þar sem atvinnuleysi karla var 1,0% og atvinnuleysi kvenna 0,4% og á Austurlandi þar sem atvinnuleysi karla var 1,4% og atvinnuleysi kvenna 1,2%. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnleysi karla og kvenna jafnt 3,4%,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.

Alls voru 2.700 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok ágúst og fækkaði um 142 frá júlí.

Af atvinnulausum höfðu 2.395 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði en það er mun minni fjöldi en í ágúst í fyrra, þegar 5.083 höfðu verið atvinnulausir í meira en 12 mánuði.

„Atvinnulausum í lok ágúst fækkaði í öllum atvinnugreinum frá lokum júlí. Mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum, í ýmiss konar opinberri þjónustu (fræðslu, heilbr. og félagsþjónustu), í upplýsingatækni- og útgáfu svo og við sjávarútveg eða á bilinu 15% til 18% fækkun atvinnulausra milli mánaða,“ segir í skýrslunni.

Í ágúst voru 29 erlend þjónustufyrirtæki starfandi með samtals 237 starfsmenn.

„Þá voru starfsmenn starfsmannaleiga, innlendra og erlendra samtals 672 í ágúst á vegum 19 starfsmannaleiga. Flestir starfsmenn starfsmannaleiga komu frá Póllandi eða 51%, 19% frá Lettlandi og 13% frá Litháen. Þeir sem eftir standa eða um 17% starfsmanna komu frá 11 öðrum ríkjum.“

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi í september verði á bilinu 2,9 prósent til 3,2 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×