Erlent

And­lát Amini „ó­heppi­legt at­vik“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Amini var einungis 22 ára þegar hún lést.
Amini var einungis 22 ára þegar hún lést. EPA/Abedin Taherkenareh

Lögreglan í Íran segir að dauði 22 ára konu sem lést í haldi lögreglu sé „óheppilegt atvik“. Lögreglan neitar að hafa beitt hana ofbeldi er hún var í haldi og segist hafa gert allt sem hægt var til að bjarga lífi hennar.

Á fimmtudaginn var Mahsa Amini handtekin af lögreglu fyrir að nota ekki hijab-slæðu á almannafæri. Á föstudaginn fór hún í dá og lést í kjölfar þess. Samkvæmt yfirvöldum í Íran var banamein hennar hjartaáfall.

Mikil reiði hefur verið meðal almennings í Íran í kjölfar dauða Amini og mótmæltu konur á götum úti um helgina. Ein kvennanna sem tók þátt í mótmælunum tók af sér slæðuna og kallaði eftir „dauða einræðisherrans“.

Talið er að Amini hafi verið barin af lögreglu er hún var í haldi þeirra en lögreglan neitar því. Í yfirlýsingu segir lögregla dauðann hafa verið „óheppilegt atvik“ og að allt hafi verið reynt til þess að bjarga lífi hennar.

Í frétt CNN segir að 38 manns hafi látist í mótmælum vegna andlátsins en lögreglan hefur notast við táragas til þess að hafa hemil á mótmælendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×