Erlent

Leið­togi hægrimanna fær stjórnar­myndunar­um­boð

Kjartan Kjartansson skrifar
Ulf Kristersson, leiðtogi Miðjumannanna (s. Moderatarna), gæti orðið næsti forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristersson, leiðtogi Miðjumannanna (s. Moderatarna), gæti orðið næsti forsætisráðherra Svíþjóðar. AP/Fredrik Sandberg/TT News Agency

Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderatarna, fékk formlegt umboð til að mynda nýja ríkisstjórn í Svíþjóð í dag. Hægriöfgaflokkurinn Svíþjóðardemókratarnir gætu tekið sæti í ríkisstjórn hægri blokkarinnar eða varið minnihlutastjórn falli.

Andreas Norlen, forseti sænska þingsins, fól Kristersson umboðið í dag en sagðist ekki hafa sett honum ákveðin tímamörk þar sem stjórnarmyndun gæti orðið tímafrek. Kristersson kom sjálfur bjartsýnn af fundinum með Norlen.

„Skilaboð mín til forsetans voru þau að allt gangi vel. Ég vil mynda ríkisstjórn sem sameinar en sundrar ekki,“ sagði leiðtoginn að fundi loknum.

Mið- og hægriflokkarnir fjórir unnu 176 þingsæti gegn 173 sætum mið- og vinstriblokkarinnar í þingkosningunum sem fóru fram 11. september. Magdalena Andersson, forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmanna, baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína í síðustu viku.

Svíþjóðardemókratarnir, umdeildur hægriöfgaflokkur sem spratt upp úr hreyfingu nýnasista, er næststærsti flokkurinn á sænska þinginu eftir kosningarnar. Ekki hugnast öllum flokkum hægriblokkarinnar að vinna með honum. Flokkurinn hefur engu að síður örlög hvers kyns hægristjórnar í höndum sér.

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, gekk einnig á fund Norlen í dag. Eftir fundinn sagði hann blaðamönnum að hans skoðun væri sú að það hentaði Svíþjóð best að hafa meirihlutastjórn.


Tengdar fréttir

Anders­son segir „dyrnar standa opnar“

Magdalena Andersson gekk á fund forseta sænska þingsins í morgun þar sem hún baðst formlegrar lausnar úr embætti forsætisráðherra Svíþjóðar eftir um níu mánuði í embætti. Hægriflokkarnir á þingi hafa þegar hafið viðræður um myndun nýrrar stjórnar, en Andersson hefur rétt út hönd til hægriflokksins Moderaterna og opnað á samstarf, fari svo þeim snúist hugur varðandi stjórnarsamstarf með Svíþjóðardemókrötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×