Innlent

Góð kartöfluuppskera í Krakkaborg í Flóahreppi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Leikskólabörnin voru montin með kartöflurnar, sem þau tóku upp.
Leikskólabörnin voru montin með kartöflurnar, sem þau tóku upp. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Börnin í leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi og starfsfólk hoppa hæð sína af gleði þessa dagana því leikskólinn hefur fengið splunkunýtt gróðurhús og þá er kartöfluuppskeran með besta móti í útigarði skólans.

Það var góð stemming í góðra veðrinu í Krakkaborg í gær á Degi íslenska náttúru því þá var uppskeruhátíð leikskólans, auk þess, sem skólinn var að fá Grænfánann afhentan í þriðja skipti. Dagurinn var líka notaður til að taka upp kartöflur.

Í Krakkaborg eru 34 nemendur á aldrinum 12 mánaða til fimm ára og starfsmenn eru 16.

“Þetta er bara falin náttúruperla rétt fyrir utan Selfoss. Hér vinnum við mikið og gott starf með náttúru og vinnum mikið með umhverfismennt. Við ræktum myntu, við reynum að rækta kartöflur og gerum bara ýmsar tilraunir með allskonar grænmeti, sem okkur dettur í hug að gera,” segir Sara Guðjónsdóttir, leikskólastjóri.

Og þið voruð að fá nýtt gróðurhús?

“Já, gróðurhúsið er góð og ný viðbót hjá okkur.”

Safnað var fyrir þessu nýja og glæsilega gróðurhúsi, sem er á lóð leikskólans.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En eru laus leikskólapláss á Krakkaborg í dag?

“Nei, því miður en við getum bætt við okkur ef ég fæ gott starfsfólk með mér í lið,” segir Sara.

Og að sjálfsögðu sungu börnin á uppskeruhátíðinni.

Sara Guðjónsdóttir, leikskólastjóri á Krakkaborg í Flóahreppi, ásamt einum nemanda skólans. Sara segir að leikskólinn sé falin náttúruperla rétt fyrir utan Selfoss.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×