Fótbolti

Bróðir Pogbas segist vera saklaus og ætlar ekki að afhjúpa neitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul og Mathias Pogba meðan allt lék, eða virtist leika, í lyndi.
Paul og Mathias Pogba meðan allt lék, eða virtist leika, í lyndi. getty/Corbis

Lögmaður Mathias Pogba hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skjólstæðingur hans hafi ekki verið viðriðinn fjárkúgun á hendur Paul Pogba og hann vilji lægja öldurnar milli þeirra bræðra.

Mathias hafði stigið fram og sagst ætla að greina frá viðkvæmum upplýsingum um yngri bróður sinn. Hann beið þó ekkert með að segja að Paul hefði leitað til töfralæknis til að leggja bölvun á Kylian Mbappé, samherja sinn í franska landsliðinu. Sjálfur greindi Pogba frá því að hann væri fórnarlamb fjárkúgunar.

Í gegnum lögmann sinn hefur Mathias nú svarið af sér allar sakir og segist aldrei hafa tekið þátt í að kúga fé út úr bróður sínum. Hann ætlar ekki að tjá sig frekar um málið og leitar leiða til að sættast við bróður sinn að því er fram kemur í yfirlýsingu lögmannsins.

Mathias er einnig fótboltamaður eins og Paul og tvíburabróðir sinn, Florentin. Tvíburarnir eru þremur árum eldri en Paul. Mathias var síðast á mála hjá Belfort í Frakklandi. Hann hefur leikið fimm leiki fyrir landslið Gíneu.

Paul gekk í raðir Juventus á frjálsri sölu frá Manchester United í sumar. Hann gekkst nýverið undir aðgerð og ólíklegt þykir að hann spili neitt fram að HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×