Erlent

Sendiherra Íslands vottaði virðingu sína: Langar raðir við útför Gorbatsjovs

Samúel Karl Ólason skrifar
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, vottaði Gorbatsjov virðingu sína í morgun. Með houm á myndinni er Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur.
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, vottaði Gorbatsjov virðingu sína í morgun. Með houm á myndinni er Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur. Utanríkisráðuneytið.

Langar biðraðir hafa myndast við útför Míkhaíl Gorbatsjov í Moskvu í morgun. Útförin fer fram í dag en líkkista síðasta leiðtoga Sovétríkjanna liggur í Súlnasalnum í Húsi verkalýðsins í Moskvu þar sem fólk vottar honum virðingu sína í dag.

Þeirra á meðal er Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.

Gorbatsjov var leiðtogi Sovétríkjanna á árunum 1985 til 1991 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir þátt sinn í að draga úr spennu í samskiptum austurs og vesturs.

Heiðursverðir standa við kistu Gorbatsjovs.AP/Alexander Zemlianichenko

Gorbatsjov lést síðastliðinn þriðjudag eftir veikindi, en hann varð 91 árs gamall.

Sjá einnig: Pútín verður ekki viðstaddur útför Gorbatsjov

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneyti Íslands sækir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, athöfnina í dag, eins og fjölmargir sendiherrar annarra ríkja. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, er í Moskvu til að votta Gorbatsjov virðingu sína. Kreml segir engan fund milli Orbans og Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, vera skipulagðan.

Í frétt Reuters segir að Gorbatsjov hafi verið virtur víða á Vesturlöndum fyrir umbætur sem hann framkvæmdi í Rússlandi en hann hafi lifað nógu lengi til að sjá yfirvöld þar snúa mörgum af hans umbótum við.

Gorbatsjov fékk ekki formlega ríkisútför og er það til marks um að heima fyrir kenna margir honum um fall Sovétríkjanna og þá ólgu sem því fylgdi.

Formleg ríkisútför hefði einnig skilyrt Pútín til að sækja hana og bjóða öðrum þjóðarleiðtogum. AP fréttaveitan segir Pútin mögulega ekki tilbúinn til þess vegna innrásar Rússa í Úkraínu og gífurlegrar spennu Rússlands og Vesturlanda vegna hennar.

Langar raðir mynduðust í morgun við Súlnasalinn í Moskvu þar sem líkkista Gorbatsjov liggur. Útförin fer fram í dag.AP

Andrew Roth, blaðamaður Guardian í Rússlandi, birti meðfylgjandi myndir úr Súlnasalnum í morgun.

Matthew Luxmoore, blaðamaður Wall Street Journal, tók myndbönd af röðunum við útförina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×