Skoðun

Er alltaf best að sigra?

Eva María Jónsdóttir skrifar

Við elskum öll íslensku. Við sem höfum hana að móðurmáli og líka þau sem koma til landsins og læra hana sjálfviljug. Að veita því athygli sem maður óskar góðs gengis og gróanda er okkur flestum tamt. Þess vegna dreg ég athygli að íslenskunni sem blasir við framan á nýju blaði Nettó sem stendur fyrir Heilsu- og lífsstílsdögum um þessar mundir.

Fyrirsögn blaðsins er einfaldlega Sigraðu heilsuna! Flest skiljum við þetta eins og það er meint og það er sannarlega vel meint að hvetja okkur öll til að temja okkur heilsusamlegt líferni. Þó eru í orðalaginu ákveðin óþægindi, þversögn. Óþægindin tengjast hugmyndinni um að sigra. Við notum sögnina að sigra iðulega um þann sem hefur betur í viðureign, sá er sigurvegarinn. Hinn tapar. Ef við sjáum fyrir okkur viðureign okkar við eigin heilsu, hvernig væri ákjósanlegt að henni lyktaði? Ef við sigrum heilsuna, liggur hún þá ekki í valnum að viðureign lokinni? Ef hinsvegar heilsan sigrar okkur, væru okkur þá ekki allir vegir færir? Væri mögulega nær lagi að hvetja lesendur Nettóblaðsins til að sigrast á óhollustu eða einfaldlega að láta heilsuna hafa betur. Heilsan sigrar!

Orðalagið að sigra þetta og hitt er í tísku núna og það er gaman að tískubylgjum, líka í tungumálinu. Tískan er tilraunakennd og fer oft á skjön við hið gamalgróna. Það er sígilt að nota íslensku á skapandi og tilraunakenndan hátt og væri óskandi að leikurinn að tungumálinu liði aldrei undir lok. Ef menn eru tilbúnir til að ýta málinu út á ystu nöf til að tryggja sér athygli, er það ákveðin aðferð. Þeir sem nota þá aðferð eru sennilega ekki að hugsa um hversu mikið þeir unna tungumálinu. Einnig er mikils virði að gleyma ekki að senda ritmál sem fer í almenna dreifingu til prófarkalesara. Það hefði sennilega komið í veg fyrir að mér birtist þessi dapurlega sýn á heilsuna sem liggur gersigruð og óvíg eftir viðureign okkar. Og ástand mitt hefur aldrei verið verra, því ég hef tapað heilsunni!

Höfundur er varaformaður Íslenskrar málnefndar. 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×