Viðskipti innlent

Fresta vaxta­hækkunum þar sem gleymdist að til­kynna við­skipta­vinum

Atli Ísleifsson skrifar
Einstaklingar með lán hjá Arion sem bera óverðtryggða breytilega vexti munu greiða einu prósentustigi lægri vexti en þeir hefðu annars gert frá 29. júlí til 25. september.
Einstaklingar með lán hjá Arion sem bera óverðtryggða breytilega vexti munu greiða einu prósentustigi lægri vexti en þeir hefðu annars gert frá 29. júlí til 25. september. Vísir/Vilhelm

Arion banki hefur ákveðið að vaxtahækkun óverðtryggðra neytendalána með breytilegum vöxtum sem taka átti gildi 29. júlí síðastliðinn muni ekki taka gildi fyrr en 25. september næstkomandi. Þetta sé vegna þess að bankanum hafi misfarist að tilkynna viðskiptavinum um breytinguna með beinum hætti.

Einstaklingar með lán hjá Arion banka sem bera óverðtryggða breytilega vexti munu því greiða einu prósentustigi lægri vexti en þeir hefðu annars gert frá 29. júlí til 25. september.

Í tilkynningun á vef Arion banka segir að í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Íslands frá 24. ágúst síðastliðinn um að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig séu frekari breytingar á vöxtum bankans til skoðunar. Landsbankinn tilkynnti um hækkun sinna vaxta í gær vegna stýrivaxtahækkunarinnar í ágúst. 

Þá segir að frestunin nú nái fyrst og fremst til íbúðalána, bílalána og lána sem beri kjörvexti.

„Viðskiptavinum með óverðtryggð neytendalán með breytilega vexti hefur verið tilkynnt um þessa frestun á hækkun vaxta.

Frestunin er tilkomin vegna þess að þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um 1 prósentustigs vaxtahækkun á vef bankans 28. júní sl., sem átti að taka gildi 30 dögum síðar, misfórst að tilkynna viðskiptavinum um breytinguna með beinum hætti. Því mun bankinn fresta vaxtahækkuninni og endurgreiða ofgreidda vexti en ofgreiddir vextir ná aðeins til þriggja síðustu daga júlímánaðar.

Einstaklingar með lán hjá Arion banka sem bera óverðtryggða breytilega vexti munu því greiða einu prósentustigi lægri vexti en þeir hefðu annars gert frá 29. júlí til 25. september,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Lands­bankinn fyrstur til að hækka vextina

Landsbankinn hefur ákveðið að hækka breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,75 prósentustig og verða þeir eftir breytingu sjö prósent.

Seðla­bankinn hækkar stýri­vexti um 0,75 prósentur

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, fara því úr 4,75 prósent í 5,5 prósent. Þetta er áttunda stýrivaxtahækkun Seðlabankans í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×