Erlent

Ekki líðandi að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu sé ógnað

Heimir Már Pétursson skrifar
Rafael Mariano Grossi forstjóri Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar segir ekki líðandi að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu sé ógnað af stríðsátökunum í Úkraínu.
Rafael Mariano Grossi forstjóri Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar segir ekki líðandi að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu sé ógnað af stríðsátökunum í Úkraínu. AP/Andriy Andriyenko

Forstjóri Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar segir ekki líðandi að öryggi kjarnorkuversins í Zaporizhzhia haldi áfram að vera ógnað af stríðandi fylkingum í Úkraínu. Eftirlitsmenn stofnunarinnar væru komnir til að vera í kjarnorkuverinu sem er það stærsta í Evrópu og hefur þegar verið ógnað með sprengjuárásum.

Rafael Grossi forstjóri Alþjóðkjarnorkustofnunarinnar er kominn aftur á úkraínskt yfirráðasvæði eftir um fimm klukkustunda leiðangur íZaporizhzhia kjarnorkuverið í gær með hópi samstarfsmanna sem enn eru í kjarnorkuverinu. Hann segist persónulega hafa skoðað alla helstu hluta versins, átt ítarlegar viðræður við starfsfólk sem og íbúa í nálægð orkuversins sem hafi komið til að ræða við hann.

Rússneska varnarmálaráðuneytið birti þessa mynd af Rafael Grossi þegar hann skoðaði aðstæður í Zaporizhzhia kjarnorkuverinu við bæinn Enerhodar í gær.AP/rússneska varnarmálaráðuneytið

„Það sem ég sagði fólkinu get ég endurtekið hér á yfirráðasvæði Úkraínu; við erum ekki á förum. Fulltrúar Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar eru nú í kjarnorkuverinu, eru ekki á förum og verða þar áfram," sagði Grossi. Mikil vinna væri framundan við að greina allar hliðar á rekstri og stöðu kjarnorkuversins. Hann hefði enn áhyggjur af öryggi þess.

„Ég hafði, hef og mun halda áfram að hafa áhyggjur af kjarnorkuverinu þar til ástandið er orðið stöðugra og meira fyrirsjáanlegt. Það er augljóst að öryggi bygginganna hefur verið ógnað. En við höfum ekki getu til að meta hvort það var gert fyrir tilviljun eða meðvilja," segir Grossi. Þetta væri hins vegar staðreynd sem yrði að taka mið af og koma í veg fyrir að endurtæki sig.

Rússar hafa ekki hikað við að skjóta eldflaugum á íbúðabyggð og ýmsa innvið eins og skóla. Hér sjást rústir af skóla í bænum Druzhkivka í Donetsk héraði þar sem kjarnorkuverið er einnig og átök eru mjög mikil.AP/Kostiantyn Liberov

„Hvað sem hver segir og hver sem afstaða manna er til stríðsins, þá getur þetta ástand ekki fengið að halda áfram. Þess vegna erum við að reyna að koma upp ákveðnu kerfi með viðveru okkar fulltrúa á staðnum til að bæta ástandið," sagði Rafael Grossi í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×