Innlent

Læknar harma á­huga­leysi stjórn­valda

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ragnar Freyr Ingvarsson er formaður Læknafélags Reykjavíkur. 
Ragnar Freyr Ingvarsson er formaður Læknafélags Reykjavíkur.  Vísir

Læknafélag Reykjavíkur harmar áhugaleysi stjórnvalda á sjúkratryggðum íbúum landsins. Síðasti samningur ríkisins og sjálfstætt starfandi lækna var gerður árið 2013 og rann út í lok árs 2018.

Í dag greindi Ríkisútvarpið frá því að reglugerð um niðurgreiðslu kostnaðar sjúklinga vegna sérgreinalækninga hafi runnið út í morgun vegna mistaka. Síðar fékk fréttastofa RÚV upplýsingar um að reglugerðin hafi verið endurnýjuð og gildi til 31. október.

Í ályktun sem Læknafélag Reykjavíkur sendi frá sér í kvöld eftir félagsfund kemur fram að félagið harmi það áhugaleysi sem stjórnvöld hafa sýnt sjúkratryggðu fólki á landinu.

„Ekki hefur verið samið um mikilvæga og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem sjálfstætt starfandi læknar veita frá því síðasti samningur var gerður árið 2013 og rann hann út 31.12.2018. Samninganefnd lækna hefur ekki fundið neinn samningsvilja hjá viðsemjendum sínum síðan þá. Vegna þessa hefur hluti sjálfstætt starfandi lækna og læknastöðva þegar í dag hætt að senda rafræna reikninga til Sjúkratrygginga Íslands og ljóst er að fleiri munu fylgja í kjölfarið,“ segir í ályktuninni.

Félagið segist vona að stjórnvöld bregðist skjótt við og sýni í verki að þeim sé annt um að gæta jafnræðis hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×