Neytendur

Þurfi að laga meingallaða tolla er varða súkkulaði og franskar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Formaður félags atvinnurekenda bendir á ýmsa galla er varðar tollalögin, meðal annars hvað varðar franskar kartöflur og súkkulaði.
Formaður félags atvinnurekenda bendir á ýmsa galla er varðar tollalögin, meðal annars hvað varðar franskar kartöflur og súkkulaði. Getty

Fjármálaráðherra telur óásættanlegt að erlent vinnuafl njóti ívilnana í skjóli tolla - og telur að stjórnvöld þurfi að vera virkari í að laga umhverfið að þörfum nútímans. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir borðleggjandi að tollar sem vernda enga íslenska framleiðslu verði afnumdir til að lækka verð.

Félag atvinnurekenda hefur hvatt stjórnvöld til að afnema 76 prósenta toll á franskar kartöflur þar sem eini íslenski frönskuframleiðandinn, Þykkvabæjar, er hættur framleiðslu. Ekki sé hægt að rukka neytendur til að vernda framleiðslu sem er ekki lengur til.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins sendi á dögunum bréf til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra með erindi um afnám tollsins.

Í skriflegu svari Bjarna til fréttastofu vegna málsins segist hann vilja huga að eðlilegu samkeppnisumhverfi. Staða verslunar hafi til dæmis verið stórbætt með niðurfellingu vörugjalda fyrir nokkrum árum. Vafalaust séu dæmi um að tollasamningar þarfnist endurskoðunar og að stjórnvöld mættu vera virkari í að laga þá að þörfum nútímans.

Ólafur segir stjórnvöldum hins vegar í lófa lagið að fella niður umræddan toll á franskar - samningar þarfnist ekki endurskoðunar til þess.

„Bara rétt eins og snakktollurinn var felldur niður 2017 og tollar á til dæmis fötum, vörugjöld a raftækjum og fleira á árunum 2016 til 2017. Það þarf ekkert annað til en ákvörðun Alþingis,“ segir Ólafur.

Í svari Bjarna segir að stjórnvöld mættu vera virkari í að laga tollasamninga að þörfum nútímans. Það sé til dæmis slæmt að íslenskir bakarar þurfi hráefni til baksturs sem sé tollað inn í landið, á sama tíma og fullunnar bakaðar vörur koma án tolla inn í landi. Með því ívilni tollafyrirkomulagið erlendu vinnuafli umfram innlent og það sé óásættanlegt.

Ólafur fagnar því ef mál sem þessi verði endurskoðuð.

„Hann er með þrjú bréf sem varða algjörlega sambærilegt mál, það er að segja að innflutt mjólkursúkkulaði er tollalaust en hráefni, til dæmis mjólkur- og undanrennuduft sem innlendir súkkulaðiframleiðendur þurfa í sína framleiðslu, bera gríðarlega háa tolla.“

Þetta sé sérstaklega mikilvægt nú í verðbólgu.

„Það er engin ástæða til að viðhalda verndartollum sem allir eru sammála um að vernda ekki neitt. Það er svo borðleggjandi að stjórnvöld stígi slík skref til að lækka verð.“


Tengdar fréttir

Verndartollur „sem verndar einfaldlega ekki neitt“

Verndartollar á franskar kartöflur vernda nákvæmlega ekki neitt nú þegar engin innlend framleiðsla er á vörunni. Þetta segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sem telur að afnám tolla myndi þýða tuga prósenta verðlækkun á matvöruna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×