Tíska og hönnun

„Munur á því að fá innblástur og að stela hugmyndum annarra“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Diana Rós Hanh Breckmann er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Diana Rós Hanh Breckmann er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Instagram @dianabreckmann

Diana Rós Hanh Breckmann er sjálfstætt starfandi tískustílisti sem hefur alltaf leyft sér að prófa og þróa alls konar stíla. Hún velur sér föt samkvæmt skapi og stemningu og er hrifin af austur asíska götustílnum í bland við metal fíling. Diana Rós er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Hvað hún er ótrúlega fjölbreytt! Það er gaman að fá að fylgjast með hverjum og einum skilgreina sig með tísku, það er enginn eins þótt við fáum svo mikinn innblástur alls staðar að.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Litríku tabi skórnir mínir frá Maison Margiela er allra tíma uppáhalds því þeir eru svo einstakir - mikið lita clash sem ég er mikill perri fyrir. En flíkin sem ég er að nota mest núna er kasmír lambhúshettan frá Aftur því það er byrjað að kólna svo hratt.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ég reyni að vera eins fljót og ég get, er alltaf á síðustu stundu að velja föt. Finnst það koma náttúrulega út þannig hjá mér og vera þeim mun flottara. 

Að leyfa mér að velja föt samkvæmt skapi og stemningu. 

Litir geta spilað svo inni í hvernig skapi maður er í, þess vegna reyni ég að koma í veg fyrir að velja föt með miklum fyrirvara, eða deginum áður.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Metal meets east asian street style. Ég er mjög hrifin af metal fíling, til að mynda hauskúpum. Austur-asíska götustílnum má lýsa sem góðri litasamsetningu, tech-wear stíl af fatnaði og skarti og mörg lög af fötum sem passa saman.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já! Ég hef alltaf leyft mér að prófa og þróa alls konar stíla. Ég hef oft í gegnum tíðina orðið heltekin af ákveðnum stíl og sá stíll alveg tekið yfir hjá mér í ákveðinn tíma. 

Svoleiðis hef ég náð að þróa stílinn minn eins og hann er í dag, með því að taka það sem ég er hrifnust af héðan og þaðan.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Frá ýmsum tískulistamönnum, þar má nefna Jamie-Marie Shipton, Lotta Volkova, Glenn Martens & Feng Fan.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Bannað að herma, það er munur á því að fá innblástur og að stela hugmyndum annarra. Frekar að fylgja sínu eigin og því sem manni finnst vera flott, það fer þér best.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Gaman að segja frá því að ég verð að velja litaðar hárlengingar sem ég klæðist frá Tomikoni Wig. Hann og konan hans handlituðu lengingarnar litríkar og með litlum hjörtum.

Ég fékk að kynnast Tomi og Sayaka fyrr á árinu þar sem við unnum saman og ég elska þeirra vinnu. Það var nýtt fyrir mér að nota skrautlegt hár sem partur af heildarlúkkinu mínu.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Farðu þína eigin leið, leyfðu þér að prófa alls konar og þorðu því. 

Veldu tískutrendin sem að heilla þig mest en ekki hoppa á vagninn alltaf þegar einhver ný mini-trend koma. 

Verslaðu gáfulega, fast-fashion fyrirtækin framleiða flíkur sem að endast ekki lengi, betra að eiga færri, vel vandaðar og góðar flíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.