Erlent

Skutu óvopnaðan mann til bana er hann stóð upp úr rúmi sínu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Atvikið átti sér stað í borginni Columbus í Ohio. Mynd er af lögreglubíl í borginni en tengist fréttinni ekki beint.
Atvikið átti sér stað í borginni Columbus í Ohio. Mynd er af lögreglubíl í borginni en tengist fréttinni ekki beint. Getty/Kirk Irwin

Lögreglan í Columbus í Ohio hefur birt myndband af því þegar svartur maður var skotinn til bana á heimili sínu af lögreglu. Maðurinn var líklegast sofandi þegar lögreglu bar að og hélt á rafrettu þegar þeir nálguðust hann.

Atvikið átti sér stað á þriðjudaginn og var lögreglan á svæðinu til þess að handtaka Donovan Lewis fyrir líkamsárás og fyrir ólöglega meðferð á skotvopni.

Lögreglan birti samdægurs myndbönd úr búkmyndavélum lögreglumannanna og þar sést þegar lögregla opnar hurðina á svefnherbergi Lewis og skýtur hann einungis nokkrum sekúndum síðar.

Lewis hafði verið sofandi og vaknaði þegar lögreglan ruddist inn í herbergið. Hann hafði sofnað með rafrettu í hendinni og hélt því á henni þegar hann rétti sig við í rúminu. Lögreglan taldi rafrettuna vera skotvopn en engin skotvopn fundust í herbergi mannsins eftir atvikið.

Lewis féll á rúmið eftir að hafa verið skotinn í kviðinn og kölluðu lögreglumennirnir eftir því að hann myndi skríða út úr herberginu. Lewis gerði það og var svo settur í handjárn.

Hann var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa verið tekin úr íbúðinni og lést þar síðar um nóttina. Lögreglumaðurinn sem skaut hann, Ricky Anderson, hefur verið sendur í launað leyfi vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×