Erlent

„Greiddi leiðina fyrir frjálsa Evrópu“

Atli Ísleifsson skrifar
Míkhaíl Gorbatsjov var kjörinn aðalritari Kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum árið 1985, þá 54 ára gamall.
Míkhaíl Gorbatsjov var kjörinn aðalritari Kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum árið 1985, þá 54 ára gamall. Getty

Leiðtogar þjóða og alþjóðastofnana, núverandi og fyrrverandi, víðs vegar um heim hafa minnst Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, sem lést í gær, 91 árs að aldri.

„Hann gegndi lykilhlutverki með því að binda enda á kalda stríðið og rífa járntjaldið. Það greiddi leiðina fyrir frjálsa Evrópu,“ sagði Úrsúla von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á Twitter. Hún segir Gorbatsjov hafa verið leiðtoga sem menn hafi treyst og borið virðingu fyrir.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti, sem hefur í gegnum árin verið gagnrýninn á Gorbatsjov, hefur lýst yfir djúpri samúð vegna dauða Gorbatsjovs, og segir talsmaður forsetans að hann muni senda fjölskyldu hans skeyti með skilaboðum.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir Gorbastjov hafa verið einstakan þjóðarleiðtoga sem hafi breytt gangi sögunnar. „Heimurinn hefur misst mikill, alþjóðlegan leiðtoga, mann sem trúði á fjölþjóðasamvinnu og var óþreytandi talsmaður friðar.“

Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, skrifar á Twitter-síðu sinni að hann sé hryggur að frétta af dauða Gorbatsjovs. Hann sé fyrirmynd á þessum tímum þar sem Pútín hafi ákveðið að ráðast inn í Úkraínu.

Condoleezza Rice, sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna á árunum 2005 til 2009, segir að Gorbatsjov hafi verið maður sem hafi reynt að veita þjóð sinni betra líf. „Hann skipti máli og án hugrekkis hans hefðum við ekki fengið friðsamleg endalok kalda stríðsins.“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að hugsjónir Gorbatsjovs um betri heim verði fordæmi fyrir aðra.


Tengdar fréttir

Míkhaíl Gorbatsjov er látinn

Míkhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, er látinn 91 árs að aldri. Gorbatsjov hafði verið að glíma við veikindi í langan tíma og lést á spítala í Moskvuborg í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×