Erlent

Segjast hafa brotið sér leið í gegnum varnir Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður í Kherson fyrr í mánuðinum.
Úkraínskur hermaður í Kherson fyrr í mánuðinum. Getty/Wojciech Grzedzinski

Úkraínumenn segjast hafa gert umfangsmiklar gagnárásir gegn Rússum í Kherson-héraði í Suður-Úkraínu. Embættismenn segja gagnárásirnar hafa skilað árangri og þeir hafi brotið sér leið í gegnum varnir Rússa á svæðinu.

Í yfirlýsingu frá yfirmönnum úkraínska hersins í suðurhluta landsins segir að árásir hafi verið gerðar í nokkrum stöðum á víglínunni í Kherson og að hermenn hafi brotið sér leið í gegnum varnir Rússa. Það hefur þó ekki verið staðfest þar sem stutt er síðan gagnárásirnar hófust.

Undirbúningur fyrir gagnárás Úkraínumanna í suðri hefur staðið yfir um nokkuð skeið. Hann hefur einkennst af manna- og hergagnaflutningum samhliða árásum Úkraínumanna á bakvið víglínurnar. Árásir á birgðastöðvar og vopnageymslur Rússa í Kherson og á Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014.

Þá hafa Úkraínumenn einnig gert árásir á brýr og lestarteina til að gera Rússum erfiðara um að flytja menn og birgðir um svæðið.

Úkraínumenn eru sagðir hafa beitt svokölluðum HIMARS-eldflaugakerfum og árásum skæruliða og sérsveita til að grafa undan hersveitum Rússa í héraðinu. 

Innrás Rússa í Úkraínu hefur litlum árangri skilað á undanförnum vikum eða allt frá því borgin Lysychansk í Luhansk-héraði féll í hendur Rússa. Rússar hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli frá því innrásin hófst fyrir hálfu ári síðan.

Vladimír Pútin, forseti Rússlands, gaf nýverið út þá skipun að fjölga ætti rússneskum hermönnum um 137 þúsund fyrir lok þessa árs.

Engar formlegar útskýringar á skipun Pútíns um stækkun hersins hafa verið gefnar af yfirvöldum í Rússlandi. Sérfræðingar varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sögðu frá því fyrr í mánuðinum að talið væri að allt að áttatíu þúsund rússneskir hermenn hefðu fallið eða særst í átökunum í Úkraínu.

Sjá einnig: Skipun um stærri her ólíkleg til að skila árangri í Úkraínu

Jim Sciutto, fréttamaður CNN, hefur eftir bandarískum embættismönnum að hersveitir Rússa í Kherson séu margar verulega undirmannaðar. Sumar séu jafnvel skipaðar helmingi þeirra hermanna sem eiga að vera í þeim.


Tengdar fréttir

Bjartur logi við landa­mærin reyndist vera um­fangs­mikill gas­bruni Rússa

Rússar hafa verið sakaðir um brenna allt að 4,3 milljónum kúbikmetra á gasi á degi hverjum í gasvinnsluveri skammt frá landamærum Finnlands og Rússlands. Íbúar Finnlandsmegin við landamæri Rússa og Finnlands vöktu fyrst athygli á málinu, eftir að bjartur og þrálátur logi birtist við sjóndeildarhringinn.

Selenskí segir varaaflstöðvar hafa forðað kjarnorkuslysi

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir að litlu hafi mátt muni að kjarnorkuslys yrði þegar síðasta rafmagnslínan að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu datt út í átökum í kringum verið. Nokkrar klukkustundir tók að gera við línuna.

Tuttugu og tveir látnir eftir eldflaugaárás á lestarstöð

Minnst tuttugu og tveir eru látnir og tugir eru særðir eftir að Rússar skutu eldflaugum að lestarstöð í bænum Chaplyne. Eldflaugar eru sagðar hafa lent á farþegalest og stóðu fjórir lestarvagnar í ljósum logum eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×