Erlent

Leystu 34 ára gamalt mál eftir að morðinginn sleikti um­slag

Bjarki Sigurðsson skrifar
Anna Kane var 26 ára þegar hún var myrt.
Anna Kane var 26 ára þegar hún var myrt.

Lögreglunni í Pennsylvaníu tókst nýlega að leysa morðmál 34 árum eftir að morðið átti sér stað. Upp komst um morðingjann þar sem hann sleikti umslag bréfs sem hann sendi lögreglunni.

Anna Kane var myrt í október árið 1988 þegar hún var einungis 26 ára gömul og var lík hennar skilið eftir í skógi nálægt borginni Reading í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum.

Lögreglunni tókst ekki að finna morðingja hennar en fimmtán mánuðum síðar fengu þeir sent bréf með upplýsingum sem einungis morðinginn gat vitað. Bréfið var ekki merkt með nafni heldur kom fram að það væri frá „áhyggjufullum borgara“.

Á líkinu hafði fundist munnvatn frá morðingjanum en ekki var hægt að bera það saman við DNA-sýnið á bréfinu þar til nú þar sem tæknin var ekki nægilega þróuð. Lögreglu tókst að staðfesta að sami maður hafi sent bréfið og skilið munnvatn eftir á líkinu.

Þá gat lögregla einnig staðfest að sýnin tilheyrðu Scott Grim sem býr nálægt Reading. Lögregla veit ekki mikið um Grim en hann lést árið 2018. Nú verður sýnið notað til þess að sjá hvort hann beri ábyrgð á öðrum óleystum sakamálum á svæðinu.

Scott Grim lést árið 2018.Lögreglan í Pennsylvaníu

Í samtali við CNN segir Tamika Reyes, dóttir Kane, að það sé mikill léttir að vita hver morðinginn er. Hún var einungis níu ára gömul þegar móðir hennar lést.

Kane starfaði sem vændiskona þegar hún lést og voru íbúar Pennsylvaníu ekkert allt of áhugasamir um morðið. Einhverjir sögðu að hún hafi átt þetta skilið.

„Það var vont. Hún var meira en það, hún var fórnarlamb. Hún var móðir. Hún var elskuð. Enginn á það skilið sem kom fyrir hana,“ segir Reyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×