Stórsigur Barcelona í fyrsta deildarleik Kounde

Atli Arason skrifar
Jules Kounde spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir Barcelona í dag.
Jules Kounde spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir Barcelona í dag. Getty Images

Jules Kounde var í byrjunarliði Barcelona sem vann 4-0 sigur á Valladolid í spænsku úrvalsdeildinni í dag.

Kounde var eini leikmaðurinn af þeim fimm sem Barcelona keypti í sumar sem átti enn þá eftir að skrá í leikmannahóp liðsins fyrir tímabilið. Barcelona hafði út ágúst mánuð til að klára skráningar og það virðist hafa gengið eftir. 

Barcelona tilkynnti sérstaklega á samfélagsmiðlum sínum að Kounde væri í byrjunarliðinu fyrir leikinn í dag, eftir að búið var að ganga frá öllum lausum endum.

Af hinum fjórum leikmönnunum sem Barcelona fékk til liðs við sig í sumar, voru Raphinha og Lewandowski líka í byrjunarliði Barcelona í leiknum og Franck Kessie kom inn sem varamaður. Andreas Christensen gat ekki leikið vegna veikinda.

Lewandowski heldur áfram að raða inn mörkum en hann skoraði aftur tvö mörk í dag en pólski framherjinn gerði einnig tvö mörk síðustu helgi gegn Real Sociedad. Pedri og Sergi Roberto skoruðu hin tvö mörk Barcelona í þessum 4-0 sigri á Valladolid.

Með sigrinum fer Barcelona upp í þriðja sæti með sjö stig á meðan Valladolid er með eitt stig í 19. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira