Viðskipti innlent

Þykkva­bæjar­franskar heyra sögunni til eftir 36 ára fram­leiðslu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þykkvabæjarfranskar sem hafa verið framleiddar í 36 ár verða ekki lengur fáanlegar.
Þykkvabæjarfranskar sem hafa verið framleiddar í 36 ár verða ekki lengur fáanlegar. Vísir/Atli

Matvöruframleiðandinn Þykkvabæjar tilkynnti í morgun að eftir 36 ára framleiðslu sé fyrirtækið hætt að framleiða franskar kartöflur. Rekstrarstjóri segir bilun í tækjabúnaði hafa leitt til þessarar ákvörðunar.

Íslendingar munu því ekki lengur geta keypt sér hinar frægu Þykkvabæjarfranskar, sem gengu lengst af undir nafninu Tilboðsfranskar þar til því var breytt í fyrra.

Blaðamaður hafði samband við Harald Pétursson, rekstrarstjóra Þykkvabæjar, til að forvitnast út í ástæðurnar fyrir því að fyrirtækið væri að hætta framleiðslu á frönskunum.

Bilun í tækjabúnaði orsakavaldurinn

Haraldur sagði að ákvörðunin hefði legið fyrir í nokkurn tíma og „svo kom upp meiriháttar bilun hjá okkur. Framleiðslulínan er mjög gömul og raunverulega svaraði ekki kostnaði að endurnýja hana.“

„Við hyggjumst ekki endurnýja búnaðinn og erum ekki í stakk búin til að framleiða þetta lengur. Þess vegna var það ákvörðun innanhús að hætta þessu. Því miður, af því við eigum marga dygga aðdáendur.“

Þrátt fyrir að þurfa að hætta með Þykkvabæjarfranskarnar vinsælu núna og að hafa hætt snakkframleiðslu fyrir um fimm árum segir Haraldur að Þykkvabæjar sé enn „í hjarta okkar kartöfluverksmiðja“ og framleiði meðal annars „forsoðnar kartöflur, grillkartöflur, kartöflusalat og kartöflugratín.“


Tengdar fréttir

„Til­boðs­franskar“ heyra sögunni til

Þykkvabæjar hefur breytt nafninu á Tilboðsfrönskum fyrirtækisins sem hafa heitið því nafni svo áratugum skiptir. „Þykkvabæjarfranskar“ heita þær núna, en útlitið pakkninganna er þó áfram hið sama – svartir stafir á gulum grunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×