Erlent

Lúxussnekkja rússnesks auðjöfurs seld á uppboði á Gíbraltar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lúxussnekkja í eigu Dmitry Pumpyansky hefur verið seld á uppboði á Gíbraltar.
Lúxussnekkja í eigu Dmitry Pumpyansky hefur verið seld á uppboði á Gíbraltar. Getty/Mikhail Svetlov

Lúxussnekkja rússnesks auðjöfurs, sem er einn þeirra sem viðskiptaþvinganir Vestuvelda hafa beinst gegn, var sett á uppboð og seld á Gíbraltar í dag. Verð snekkjunnar var metið á 75 milljónir Bandaríkjadala, eða um 10,5 milljarða íslenskra króna. 

Yfirvöld í Gíbraltar lögðu hald á snekkjuna, sem ber heitið Axioma, í mars eftir að bandaríski bankinn JP Morgan gaf það út að meintur eigandi hennar, Dmitry Pumpyansky, hefði brotið skilmála 20 milljóna dala láns hjá bankanum. 

Snekkjan, sem er 72,5 metra löng, var seld á uppboði af dómstóli flotamálaráðuneytis Gíbraltar en nöfn þeirra sem gerðu tilboð í snekkjuna hafa ekki verið gefin upp. 

Tólf geta sofið um borð í snekkjunni sem hefur sex svefnherbergi. Þar er að auki að finna sundlaug, heilsulind, bíósal og ýmis skemmtitæki. 

Samkvæmt dómskjölum sem fréttastofa Reuters hefur undir höndum lánaði JP Morgan fyrirtækinu Pyrene Investments Ltd, sem skráð er á Bresku Jómfrúrareyjum, 20,5 milljónir dala eða um 2,9 milljarða króna. Fyrirtækið er í eigu Furdberg Holding Ltd sem er svo í eigu Pumpyansky. 

Samkvæmt gögnunum voru skilmálar lánsins sviknir þegar Pumpyansky seldi hlut sinn í Furdberg til þriðja aðila í mars á þessu ári og í kjölfarið lagðar á hann viðskiptaþvinganir, sem komu í veg fyrir að hann gæti endurgreitt lánið.

Hinn 58 ára gamli Pumpyansky er einn þeirra fjölmörgu ólígarka sem vesturveldin hafa beitt viðskiptaþvingunum vegna stríðs Rússlands í Úkraínu. Samkvæmt fjármálatímaritinu Forbes er auður Pumpyansky metinn á um tvo milljarða dala, eða um 280 billjónir króna (280.000.000.000 króna). 

Hann var þar til í mars eigandi og stjórnarformaður OAO TMK, sem framleiðir stálpípur, þar á meðal fyrir rússneska orkufyrirtækið Gazprom. Að sögn fyrirtækisins hefur Pumpyansky látið af störfum innan fyrirtækisins. 

Axioma er fyrsta lúxussnekkjan, sem lagt hefur verið hald á vegna viðskiptaþvingana gegn Rússum, sem hefur verið sett á uppboð. 


Tengdar fréttir

Snekkja ó­lígarka boðin upp

Yfirvöld í Gíbraltar haldlögðu snekkjuna Axioma, sem er í eigu rússneska ólígarkans Dmitrievich Pumpyansky, í mars síðastliðnum. Nú stendur til að bjóða hana upp á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×