Innlent

Mæla gegn því að taka hunda að gos­stöðvunum

Bjarki Sigurðsson skrifar
MAST mælir gegn því að fólk fari með hunda og önnur dýr að gosstöðvunum í Meradal.
MAST mælir gegn því að fólk fari með hunda og önnur dýr að gosstöðvunum í Meradal.

Matvælastofnun (MAST) ræður fólki eindregið frá því að taka hunda og önnur dýr með að gosstöðvunum í Meradölum. Mengun getur haft afar skaðleg áhrif á dýrin.

Í tilkynningu á vefsíðu MAST segir að á gossvæðinu sé töluvert um áreiti. Þar séu flugvélar, þyrlur, drónar og mikið af fólki þannig hundar geta orðið stressaðir.

Þá hafa rannsóknir á regnvatni á svæðinu sýnt mikla efnamengun, meðal annars hefur flúrsýra greinst langt yfir neysluvatnsviðmiðum. Þá mælist einnig saltsýra í vatninu en ef hundar drekka vatn þar, éta snjó eða sleikja þófa getur það haft neikvæð heilsufarsleg áhrif.

Skyldi fólk hins vegar taka þá ákvörðun að taka hunda með sér að gosstöðvunum vill MAST minna fólk á að hafa eftirfarandi atriði í huga.

  1. Hvorki láta hundana drekka úr vatnspollum, né éta snjó á svæðinu! Vatnið getur verið mengað af alls kyns skaðlegum efnum. Hafið með drykkjarvatn og skál og bjóðið hundinum eftir þörfum að drekka úr skálinni.
  2. Reynið að koma í veg fyrir að hundarnir sleiki feld eða þófa fyrr en skolað hefur verið af þeim með vatni eftir að komið er af gossvæðinu.
  3. Hafið hundana ávallt í taumi! Lausir hundar geta hlaupið í lægðir þar sem er gas og jafnvel á hraunið. Lausir hundar geta líka valdið öðru fólki hættu og óþægindum á leiðinni með því að koma því úr jafnvægi eða velta á það grjóti.
  4. Ekki fara mjög nálægt hrauninu með hund! Hundarnir eru töluvert lægri en við og geta fengið í sig mikið meira gas. Haldið ykkur ofarlega í brekkunni með vindinn í bakið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×