Íslenski boltinn

Bestu mörkin um leikjaplan KR: „Þetta hjálpar ekki í þessari erfiðu bar­áttu sem fram­undan er“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði KR.
Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði KR. Vísir/Vilhelm

„Við ætlum að kíkja aðeins á leikjaplan KR þar sem það hefur vakið athygli,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þáttastýra Bestu markanna, en KR er á leið í aðra mánaðarlanga pásu í Bestu deild kvenna.

„Þær spiluðu í Keflavík 19. júní, síðan spila þær 28. júlí – leikur sem var flýtt – og fá því styttra frí en önnur lið í EM hléinu. Leika síðan 4. og 9. ágúst, síðan er frestað til 9. september mjög líklega,“ bætir Helena við um síðustu leiki KR.

KR átti að mæta Val þann 24. ágúst en þeim leik hefur verið frestað, fer hann að öllum líkindum fram 9. september.

Leikjaplanið hjá KR.Bestu mörkin

„Þær eru að lenda í fimm vikna pásu, spila þrjá leiki og aftur fimm vikna pása. Það sem á að vera hámark tímabilsins. Átt að vera í mesta action-inu á þessum tíma,“ sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir um leikjaplan KR liðsins.

„Þetta minnir mig pínulítið á Covid-tímabilið. Þær fóru í sóttkví í sex vikur, þá máttu þær ekki æfa saman en mega það núna,“ bætti Helena við áður en Sonný Lára Þráinsdóttir fékk orðið.

„Þetta er hræðilegt. Þær eru nýbúnar í EM pásunni, búnar að gíra sig í gang fyrir seinni hlutann, fá þá þrjá leiki og svo aftur í pásu.“

Lilja Dögg benti svo á að stuttu eftir að pásunni lýkur mætast KR og Afturelding í leik sem verður sannkallaður sex stiga leikur á botni töflunnar.

„Þetta hjálpar ekki í þessari erfiðu baráttu sem framundan er,“ sagði Helena að endingu. Sjá má umræðu Bestu markanna um leikjaplan KR í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin um leikjaplan KR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×