Klinkið

Ellert hættir hjá Gildi og fer yfir til Marels

Ritstjórn Innherja skrifar
Ellert Guðjónsson mun taka til starfa í fjárfestatengslum hjá Marel.
Ellert Guðjónsson mun taka til starfa í fjárfestatengslum hjá Marel.

Ellert Guðjónsson, sem hefur verið sjóðstjóri í eignastýringu Gildis lífeyrissjóðs frá því í ársbyrjun 2020, hefur látið að störfum hjá sjóðnum og ráðið sig yfir til Marels. Þar mun hann gegna starfi fjárfestatengils hjá stærsta félaginu í Kauphöllinni.

Áður en Ellert tók til starfa hjá Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, hafði hann meðal annars verið um árabil í fyrirtækjaráðgjöf verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance og þar á undan starfað um langt skeið hjá slitastjórn gamla Landsbankans (LBI).

Talsvert hefur verið um brotthvarf lykilstarfsmanna í eignastýringum hjá stærstu lífeyrissjóðunum í sumar.

Auk Ellerts þá var greint frá því í vikunni að Elmar Eðvaldsson, sem hefur verið sjóðstjóri í eignastýringu hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) undanfarin sjö ár, hefði gengið til liðs við sjóðastýringarfyrirtækið Ísafold Capital Partners en það er komið langt með að klára fjármögnun á nýjum sjóð – MF3 – sem mun taka þátt í fjárfestingarverkefnum íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.

Áður hafði Björn Hjaltested Gunnarsson, sem fór fyrir eignastýringu LSR frá árinu 2015, látið formlega af störfum sem forstöðumaður sviðsins í lok júní síðastliðinn. Í krafti þess að stýra eignasafni stærsta lífeyrissjóðs landsins, LSR var með eignir upp á um 1.300 milljarða í lok síðasta árs, var Björn á meðal áhrifamestu leikenda á íslenskum verðbréfamarkaði um árabil. 

Þótti Björn oft meðal annars aðsópsmeiri og sumpart djarfari í fjárfestingum sínum á hlutabréfamarkaði en kollegar hans hjá hinum stóru lífeyrissjóðunum, eins og þegar LSR jók verulega við sig í innlendum hlutabréfum samtímis því að markaðurinn var í frjálsu falli í upphafi faraldursins árið 2020. Á meðan voru aðrir lífeyrissjóðir að mestu á hliðarlínunni.

LSR leitar nú að eftirmanni Björns til að taka við eignastýringarsviðinu en sjóðurinn auglýsti starfið laust til umsóknar í síðasta mánuði.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×