Erlent

Frelsun Krímskaga forsenda stríðsloka, segir Selenskí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikill reykur blasti við strandgestum í Saky eftir röð sprenginga á herstöð Rússa á svæðinu.
Mikill reykur blasti við strandgestum í Saky eftir röð sprenginga á herstöð Rússa á svæðinu. AP/UGC

Stríðið í Úkraínu hófst með innlimun Krímskaga og mun aðeins enda með frelsun hans, segir Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti. Selenskí segir Krímskaga tilheyra Úkraínu og að Úkraínumenn muni aldrei gefa hann eftir.

Krím er viðurkennt alþjóðlega sem yfirráðasvæði Úkraínu en Rússar lýstu því yfir árið 2014 að þeir hefðu innlimað hann eftir ólöglega íbúakosningu. Margir Úkraínumenn segja þann viðburð hafa markað upphaf átakanna í Úkraínu.

Röð sprenginga varð á Saky-herstöðinni á Kríma í gær. Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði þær hafa komið frá skotfærageymslu og Úkraínumenn hafa ekki véfengt þá yfirlýsingu. Einn lést og að minnsta kosti átta særðust.

Ljóst er að Rússar munu ekki líða árás Úkraínumanna á Krím; það jafngilti árás á Rússland. Dmitry Medvedev, sem var forseti Rússlands þegar Rússar réðust inn í Georgíu árið 2008, sagði á dögunum að ef Úkraína gerði árás á skotmörk á Krímskaga væru þeir að kalla yfir sig dómsdag.

Sjálfir hafa Úkraínumenn verið tvístígandi varðandi Krím; Selenskí segir Krím nú undir í stríðinu við Rússa en hann hefur áður sagt mögulegt að semja um frið ef Rússar hörfa aftur til þess ástands sem ríkti áður en þeir hófu innrás sína í febrúar síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×