Innlent

Tveir Ís­lendingar í gæslu­varð­haldi í Dan­mörku

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mennirnir voru handteknir sama dag og árásin var gerð. Þeir neita báðir sök.
Mennirnir voru handteknir sama dag og árásin var gerð. Þeir neita báðir sök. Getty

Tveir Íslendingar eru í gæsluvarðhaldi í Danmörku eftir að hafa ráðist á annan íslenskan mann um helgina. Maðurinn liggur þungt haldinn á Háskólasjúkrahúsinu í Álaborg.

Fréttablaðið greinir frá þessu en mennirnir réðust á manninn á tjaldsvæði í bænum Rødhus Klit á norðurhluta Jótlands í Danmörku.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var árásin gerð eftir misheppnaða ránstilraun en maðurinn dvaldi á tjaldsvæðinu í húsbíl. Þeir kýldu hann, spörkuðu í hann og skáru hann með eggvopni í andlitið, handlegg og fótlegg.

Manninum er nú haldið sofandi í öndunarvél á sjúkrahúsi en hann er með brot á höfuðkúpu, kjálka, rifbeinum og alvarlega áverka á lungum.

Fréttablaðið segir árásarmennina vera 43 og 46 ára gamla en þolandinn er 56 ára gamall. Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 2. september en þeir neita báðir sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×