Fótbolti

Samúel Kári skoraði og lagði upp í stórsigri | Hólmbert og Hörður í brekku

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samúel Kári Friðjónsson skoraði og lagði upp fyrir Viking í kvöld.
Samúel Kári Friðjónsson skoraði og lagði upp fyrir Viking í kvöld.

Samúel Kári Friðjónsson skoraði annað mark norska liðsins Viking er liðið vann 5-1 stórsigur gegn írska liðinu Sligo Rovers í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Íslendingaliðin Lilleström og Panathinaikos eiga hins vegar erfið verkefni fyrir höndum í seinni leiknum eftir að hafa bæði tapað í kvöld.

Samúel og félagar tóku völdin snemma gegn Sligo Rovers í kvöld og liðið var komið með 1-0 forystu eftir tæpar fjórar mínútur. Samúel Kári bætti svo öðru marki liðsins við á áttundu mínútu leiksins og staðan var 2-0 í hálfleik.

Heimamenn í Viking bættu svo þriðja markinu við snemma í síðari hálfleik áður en Samúel lagði upp fjórða mark liðsins eftir klukkutíma leik.

Heimamenn breyttu stöðunni í 5-0 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka, en írsku gestirnir klóruðu í bakkann á lokamínútu leiksins og niðurstaðan því 5-1 sigur Viking. Samúel og félagar fara því með ansi gott forskot í seinni leik liðanna sem fer fram að viku liðinni.

Þá þurftu Hólmbert Aron Friðjónsson og Hörður Björgvin Magnússon báðir að sætta sig við tveggja marka tap í sínum leikjum.

Hólmbert og félagar í Lilleström máttu þola 1-3 tap á heimavelli gegn belgíska liðinu Antwerp og Hörður og félagar hans í Panathinaikos þurftu að sætta sig við 2-0 tap gegn Slavia Prag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×