Golf

Evrópumeistarinn leiðir eftir fyrsta dag Íslandsmótsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Perla Sól Sigurbrandsdóttir er í forystu eftir fyrsta dag Íslandsmótsins í golfi.
Perla Sól Sigurbrandsdóttir er í forystu eftir fyrsta dag Íslandsmótsins í golfi. Mynd/Sigurður Elvar Þórólfsson

Perla Sól Sigurbrandsdóttir, kylfingur úr Golklúbbi Reykjavíkur og nýkrýndur Evrópumeistari 16 ára og yngri í golfi, er með tveggja högga forystu eftir fyrsta dag Íslandsmótsins í golfi sem hófst í dag.

Mótið fer fram í Vestmannaeyjum, en Perla lék holurnar 18 í dag á 70 höggum, eða á pari vallarins.

Þær Ragnhildur Kristinsdóttir, Berglind Björndóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir eru næstar á eftir Perlu, en þær eru einnig allar úr Golfklúbbi Reykjavíkur, GR. Ragnhildur er í öðru sæti á tveimur höggum yfir pari, Ólafía í þriðja sæti á fjórum höggum yfir pari og Berglind í fjórða sæti á fimm höggum yfir pari.

Yfirburðir GR eru þó ekki algjörir því fjórir kylfingar eru jafnir í fimmta sæti og enginn þeirra úr GR. Það eru þær Heiða Guðnadóttir (Golfklúbbur Mosfellsbæjar), Andrea Ýr Ásmundsdóttir (Golfklúbbur Akureyrar), Heiðrún Anna Hlynsdóttir (Golfklúbbur Selfoss) og Guðrún Brá Björgvinsdóttir (Golfklúbburinn Keilir), en allar léku þær á sex höggum yfir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×