Erlent

Tvö­földuðu tígris­dýra­stofninn á tíu árum en glíma nú við tíðari á­rásir

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bengaltígur í Bardiya-þjóðgarðinum í Nepal.
Bengaltígur í Bardiya-þjóðgarðinum í Nepal. Getty

Stjórnvöldum í Nepal hefur tekist að tvöfalda tígrisdýrastofn sinn á tíu árum. Nú glíma landsmenn þó við tíðari árásir frá dýrunum.

Bengaltígurinn hefur verið í útrýmingarhættu síðan árið 2008 en tígurinn lifir aðallega í Indlandi, Bangladess, Nepal og Bútan. Árið 2009 var 121 tígrisdýr í Nepal en nú eru þau orðin 355.

Á síðustu tólf mánuðum hafa sextán manns verið drepin af tígrisdýrum en síðustu fimm ár þar á undan létust aðeins tíu manns samanlagt í tígrisdýraárásum.

„Það eru tvær hugsanir sem þú færð í hausinn þegar þú mætir tígrisdýri. Annars vegar „Guð minn góður, þvílík tignarlega vera,“ og hins vegar „Guð minn góður, er ég dauður?“,“ hefur BBC eftir Ayush Jung Bahadur Rana sem er hluti af hersveit sem verndar tígrisdýrin.

Flestar árásirnar eiga sér stað í þjóðgarðinum Bardiya þegar fólk fer þangað inn að ná í ávexti, sveppi og timbur. Þá hefur það nokkrum sinnum gerst að tígrar komi inn í þorp og ráðist á fólk þar. Það eru þó girðingar við jaðar þjóðgarðsins sem eiga að hindra tígrana frá því að komast að þorpunum.

Árið 2009 var átak sett á í þeim löndum sem má finna Bengaltígurinn og stefndu allar þjóðirnar á það að tvöfalda stofn sinn. Nepalar eru eina þjóðin sem hefur tekist það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×