Lífið

Bernard Cribbins látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Bernard Cribbins gerði garðinn frægan í kvikmyndinni The Railway Children. Hér sést hann aftur mættur í gervi Albert Perks árið 2010 til að kynna nýtt leikrit byggt á sögunni.
Bernard Cribbins gerði garðinn frægan í kvikmyndinni The Railway Children. Hér sést hann aftur mættur í gervi Albert Perks árið 2010 til að kynna nýtt leikrit byggt á sögunni. Getty/Anthony Devlin

Breski leikarinn Bernard Cribbins er látinn, 93 ára að aldri. Á umfangsmiklum leiklistarferli sem náði yfir sjö áratugi var hann meðal annars þekktur fyrir að fara með hlutverk Tom Campbell í kvikmynd um Doctor Who og Wilfred Mott í þáttaröðinni um doktorinn fræga.

Einnig var hann rödd barnasjónvarpsþáttanna The Wombles sem nutu mikilla vinsælda í Bretlandi á áttunda áratug síðustu aldar. Í gegnum það og hlutverk á borð við Albert Perks í kvikmyndinni The Railway Children frá árinu 1970 varð Cribbins fjölda kynslóða breskra barna góðu kunnur.

Umboðsmaður leikarans staðfestir fráfall hans við breska ríkisútvarpið BBC. Russel T Davies, yfirframleiðandi Doctor Who, er einn fjölmargra sem minnast Cribbins á samfélagsmiðlum.

„Ég er svo heppinn að hafa þekkt hann. Takk fyrir allt, gamli dátinn minn. Goðsögn hefur yfirgefið heiminn.“

Nadine Dorries, menntamálaráðherra Bretlands, segir fráfall hans vera sorglegar fregnir. „Þvílíkur hæfileikamaður sem varði lífi sínu vel.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×