Viðskipti innlent

Fram­legð Marels ó­við­unandi að mati for­stjóra

Árni Sæberg skrifar
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson er forstjóri Marels. Marel

Tekjur Marels á öðrum ársfjórðungi námu 397.3 milljónum króna en hagnaður var aðeins 25 milljónir evra eða 6,3 prósent af tekjum. Forstjórinn segir framlegðina óviðunandi.

Marel, stærsta félag Kauphallarinnar, birti ársfjórðungsuppgjör í gær. Met var slegið í pöntunum þriðja ársfjórðunginn í röð en afkoma félagsins var ekki góð sökum verðbólgu og áskorana tengdum aðfangakeðju. Þá var tekjuvöxtur hægari en gert var ráð fyrir.

Markmið um framlegð fyrir árið hefur verið lækkuð í fjórtán til sextán prósent en áður var gert ráð fyrir sextán prósenta framlegð. 

Gert er ráð fyrir bættri rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins. Á dögunum var tekin ákvörðun um að fækka starfsfólki félagsins um fimm prósent til að lækka kostnað. Þá hefur verið ráðist í að aðgerðir til að draga úr töfum í aðfangakeðju. Hærri tekjuvöxtur og virk verðstýring á vörum Marels munu leiða til betri kostnaðarþekju á næstu ársfjórðungum, að því er segir uppgjöri.

Viðburðaríkur ársfjórðungur

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels að viðburðaríkur ársfjóðungur sé að baki þar sem met var slegið í pöntunum en framlegð samt sem áður óviðunandi.

„Í núverandi umhverfi verðbólgu, skorts á hæfu vinnuafli og síbreytilegrar kauphegðunar á matvælum er Marel í einstakri stöðu til að styðja við matvælaiðnaðinn með hátækni- og hugbúnaðarlausnum sem leiða til meiri sjálfvirkni, öryggis og rekjanleika,“ segir hann.

Þá segir hann að félagið hafi verið of seint í að hækka verð þegar verðbólga tók að hækka á síðasta ári. 

„Engu að síður endurspegla metpantanir nú, sem komu inn á nýrri verðlagningu, og áframhaldandi eftirspurn hversu sterkt vörumerki Marel er. Samkeppnisstaða félagsins er sterk í umhverfi lituðu af hækkandi verðbólgu sem knýr áfram spurn eftir frekari sjálfvirknivæðingu og sjálfbærri nýtingu hráefna,“ segir Árni Oddur.

Ársfjórðungsuppgjör Marels má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×