Fótbolti

Reyndi nýliðinn að gera gæfumuninn fyrir þýsku stelpurnar á þessu EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Popp fagnar öðru marka sinna á móti Frakklandi í undanúrslitaleiknum í gær.
Alexandra Popp fagnar öðru marka sinna á móti Frakklandi í undanúrslitaleiknum í gær. EPA-EFE/Tolga Akmen

Alexandra Popp missti af tveimur síðustu Evrópumótum vegna meiðsla og er því að taka þátt í sínu fyrsta EM í sumar þrátt fyrir að spila fyrir Þýskaland og hafa verið í hópi öflugustu framherja álfunnar í langan tíma. Það er óhætt að segja að frumraunin langþráða gangi vel.

Popp tryggði þýska landsliðinu sæti í úrslitaleik Evrópumótsins með því að skora bæði mörkin í 2-1 sigri á Frakklandi í undanúrslitaleiknum í gær.

Popp er orðin 31 árs en er engu að síður að spila á sínu fyrsta Evrópumóti. Hún hefur skorað næstum því helming marka þýska landsliðsins á mótinu og er markahæst á mótinu með sex mörk ásamt hinni ensku Beth Mead.

„Ég verð að viðurkenna að ég er tilfinningasamari en vanalega af því að ég veit hvað ég þurfti að gera til þess að komast hingað. Að vera hér, hafa tækifæri til að standa sig og vera laus við meiðsli gerir mig mjög stolta,“ sagði Alexandra Popp eftir leikinn.

„En ég verð líka að þakka öllum þeim sem hafa hjálpað mér, læknaliðnu í félaginu og þjálfararnir bæði þar og hér. Þeir höfðu alltaf trú á mér og gáfu mér tækifæri til að vera hér,“ sagði Popp.

„Ég er orðinn mjög hættuleg núna alveg eins og í fortíðinni. Það var ekki þannig um tíma af því að ég var alltaf meidd,“ sagði Popp.

Popp missti af Evrópumótinu 2013 vegna meiðsla. Hún spilaði þá í gegnum ökklameiðsli til að hjálpa Wolfsburg að vinna þrennuna 2012-13 tímabilið en það kostaði hana Evrópumótið þar sem þýska landsliðið landaði sigri.

Á síðasta Evrópumóti fyrir fimm árum þá var hún meidd á hné. Hún meiddist í aðdraganda þessa móts og fékk líka kórónuveiruna á lokasprettinum en var valinn í liðið og hefur heldur betur launað það traust.

Popp hefur skorað í öllum fimm leikjum þýska liðsins á mótinu sem er nýtt met. Ekki slæmt á þínu fyrsta Evrópumóti. Hún mun því berjast bæði um EM-gull og gullskó í úrslitaleiknum á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×