Erlent

Tækluð vegna um­hverfis­gjörnings

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Umhverfissinnar líma hendur sínar við verk Botticelli.
Umhverfissinnar líma hendur sínar við verk Botticelli.

Umhverfissinnar á Ítalíu gerðu tilraun til þess að líma hendur sínar við málverkið „Primavera“ eftir Botticelli.

Þetta er nýjasti gjörningurinn af þessu tagi en slíkt hið sama var til dæmis gert í London og Manchester nú fyrr í júlí.

Fimm umhverfissinnar í Bretlandi límdu hendur sínar við ramma á eftirlíkingu málverksins „Síðasta kvöldmáltíðin“ eftir Leonardo Da Vinci, í mótmælaskyni. Eftirlíkingin sem um ræðir er sögð hafa verið máluð af Giampietrino.

Bresku umhverfissinnarnir voru hluti af samtökunum „Just stop oil“ sem mótmæla olíuiðnaðinum.

Umhverfissinnarnir á Ítalíu virðast hafa sótt innblástur til bresku samtakanna en þau gerðu tilraun til gjörningsins í Uffizi listasafninu í Flórens. BBC greinir frá þessu.

Gjörningurinn tókst þó ekki þar sem umhverfissinnarnir voru tæklaðir áður en límið á höndum þeirra náði að þorna. Engar skemmdir urðu á verkinu sjálfu þar sem glerplata ver verkið frá gjörningum sem þessum. 

Guardian greinir frá því að umhverfissinnarnir hafi rætt við sérfræðinga til þess að vera viss um að skemma ekki verkið með gjörningnum en samtökin sem þau tilheyra heita „Ultima Generazione“ eða „Síðasta kynslóðin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×