Fótbolti

Framherji Halifax yfirgefur liðið til að taka þátt í Love Island

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jamie Allen tekur sér pásu frá knattspyrnuiðkun til að finna ástina.
Jamie Allen tekur sér pásu frá knattspyrnuiðkun til að finna ástina. Instagramjamie_allen12

Jamie Allen, framherji Halifax Town sem leikur í fimmtu efstu deild Englands, hefur yfirgefið liðið á miðju undirbúningstímabili til að taka þátt í raunveruleikaþáttunum vinsælu, Love Island.

Líklega eru fáir, ef einhverjir, Íslendingar sem þekkja til knattspyrnumannsinns Jamie Allen hjá Halifax Town. Hins vegar hafa þættirnir Love Island notið mikilla vinsælda hér á landi undanfarin ár og því ekki ólíklegt að nafn hans verði á vörum einhverra næstu daga.

Halifax sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem kemur fram að Allen hafi litið á þetta sem stórt tækifæri fyrir sig.

„Jamie Allen hefur ákveðið að taka þátt í Love Island 2022. Hann gerði okkur það ljóst að þetta tækifæri væri mjög mikilvægt fyrir hann. Málið verður tekið aftur fyrir þegar hann kemur til baka,“ sagði í yfirlýsingunni.

Allen er sem áður segir framherji hjá Halifax Town. Hann hóf feril sinn hjá Fleetwood sem er líklega þekktasta liðið sem hann hefur leikið fyrir, en Fleetwood leikur nú í ensku C-deildinni. Allen lék 24 leiki á seinasta tímabili og skoraði eitt mark.

Þá á hann einnig að baki sjö landsleiki fyrir landslið Montserrat. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Montserrat brekst yfirráðasvæði í Karíbahafinu.

Montserrat hefur ekki gert góða hluti á knattspyrnusviðinu síðan eyjan hóf að halda úti landsliði. Liðið var stofnað árið 1973 og fram til ársins 2018 vann Montserrat aðeins tvo leiki, báða gegn nágrönnum þeirra í Anguilla. Liðið hefur þó orðið samkeppnishæfara á seinustu árum, en Montserrat vann tvo leiki og gerði tvö jafntefli í forkeppni HM 2022 og lenti í öðru sæti í sinum riðli.

Þá má einnig benda á þá skemmtilegu staðreynd að Montserrat lék líklega sinn frægasta landsleik árið 2002. Montserrat sat þá í neðsta sæti styrkleikalista FIFA og mætti Bútan, sem sat í næst neðsta sæti listans. Leikurinn fór fram þann 30. júní, sama dag og úrslitaleikur HM, og var kallaður „Hinn úrslitaleikurinn“ (e.The Other Final). Bútan vann leikinn 4-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×