Viðskipti innlent

Óskar ráðinn framkvæmdastjóri Smyril line

Árni Sæberg skrifar
Óskar hefur störf 8. águst næstkomandi.
Óskar hefur störf 8. águst næstkomandi. Smyril line

Óskar Sveinn Friðriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi og tekur við starfinu af Lindu Gunnlaugsdóttir.

Í tilkynningu frá Smyril line segir að Óskar Sveinn hafi verið framkvæmdastjóri véla-, kæli- og renniverkstæðisins Kapp undanfarin þrjú ár. Þar hafi hann stýrt stækkandi fyrirtæki í gegnum krefjandi tíma.

Árin þar á undan hafi Óskar stýrt fjölmörgum uppbyggingarverkefnum í flutningageiranum og hafi yfir tveggja áratuga reynslu á því sviði.

,,Ég hef á mínum ferli fengið tækifæri í ýmsum stjórnendastöðum víða um heim innan flutningageirans og síðastliðin þrjú ár stýrt því skemmtilega fyrirtæki Kapp ehf. Flutningabransinn er mjög spennandi á Íslandi og það sem Smyril Line hefur verið að gera hér á landi er einstakt. Þegar mér gafst svo tækifæri á að taka þátt í áframhaldandi vexti Smyril Line á Íslandi þá var ekki annað hægt en að segja já takk við því. Ég mun kveðja Kapp með söknuði en á sama tíma hlakka ég mikið til nýrra verkefna,” er haft eftir Óskari Sveini.

Hann mun taka við störfum 8. ágúst næstkomandi.

,,Við erum mjög ánægð að fá Óskar í öflugan hóp starfsmanna Smyril Line. Hann hefur sýnt það á síðustu árum að hann er öflugur stjórnandi í alþjóðlegu umhverfi sem mun nýtast okkur vel í áframhaldandi vexti,” er haft eftir Jens Meinhard Rasmussen, stjórnarformanni Smyril Line Ísland ehf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×