Fótbolti

Forsetinn setur stefnuna á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Forseti Íslands var á meðal stuðningsmanna á EM, líkt og Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ, en er núna mættur til Svíþjóðar að sjá aðeins yngra knattspyrnufólk keppa á Gothia Cup.
Forseti Íslands var á meðal stuðningsmanna á EM, líkt og Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ, en er núna mættur til Svíþjóðar að sjá aðeins yngra knattspyrnufólk keppa á Gothia Cup. Vísir/Vilhelm

„Við tökum þetta á HM,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Twitter-síðu sinni og þakkar stelpunum í íslenska landsliðinu í fótbolta fyrir framgöngu þeirra á Evrópumótinu í Englandi.

Forsetinn drap niður penna í kjölfar 1-1 jafnteflis Íslands við Frakkland í gærkvöld, eftir að ljóst varð að það dygði ekki til að koma Íslandi áfram í 8-liða úrslit. Í lauslegri þýðingu blaðamanns skrifaði hann:

„Í Íslendingasögunum lesum við um það hvernig hægt er að falla í bardaga en standa samt uppi sem sigurvegari. Stoltur af landsliðinu okkar í fótbolta sem tapaði ekki leik á EM en komst því miður ekki áfram. Hamingjuóskir til þeirra sem það gerðu. Takk stelpur! Við tökum þetta á HM.“

Gætu unnið sig inn á HM í september

Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist á HM en er í harðri baráttu um að komast á næsta mót sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og hefst eftir eitt ár.

Ísland á eftir tvo leiki í undankeppninni, gegn Hvíta-Rússlandi á heimavelli 2. september og gegn Hollandi á útivelli 6. september.

Ef Ísland vinnur Hvíta-Rússland dugar liðinu jafntefli gegn Hollandi til að vinna sinn riðil og komast beint á HM. Að öðrum kosti endar Ísland í 2. sæti og fer í ansi flókið umspil í október.

Í umspilinu leika liðin níu sem enda í 2. sæti síns riðils. Liðin þrjú sem safna flestum stigum, og líklegt er að Ísland eða Holland verði þar á meðal, fara beint í seinni umferð umspilsins.

Fyrst leika hin sex liðin í fyrri umferð umspilsins, þar sem þau dragast í þrjú einvígi. Sigurvegari hvers einvígis kemst áfram í seinni umferðina þar sem aftur fara fram þrjú einvígi. Sigurvegari tveggja þeirra kemst beint á HM en þriðja liðið, það með fæsta sigra úr umspili og riðlakeppni, fer í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum sem fram fer í febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×