Erlent

Gefa dýrunum frost­pinna í hita­bylgjunni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Pandabirnirnir í dýragarðinum í Madríd fá vatnsmelónufrostpinna til að kæla sig niður í hitanum.
Pandabirnirnir í dýragarðinum í Madríd fá vatnsmelónufrostpinna til að kæla sig niður í hitanum. AP/Bernat Armangue

Það eru ekki bara mennirnir sem þjást vegna hitabylgjunnar sem ríður núna yfir Evrópu. Dýrum er ekki síður heitt og þess vegna hafa starfsmenn evrópskra dýragarða tekið upp á því að gefa dýrunum frostpinna til kæla þau niður.

Hitabylgjan hefur leitt til þess að á Spáni hefur hitastigið víða farið yfir 40 gráður. Til að bregðast við gríðarlegum hitanum hafa starfsmenn í dýragarðinum í Madríd gefið dýrum garðsins frostpinna sem innihalda hefðbundna fæðu þeirra.

Selur gæðir sér á hráum fiski sem búið er að hylja með klaka.AP/Bernat Armangue

Þannig hefur pandabjörninn Bing Xing, ein helsta stjarna dýragarðsins, ekki bara fengið sinn daglega fimmtíu kílóa bambus-skammt heldur einnig vatnsmelónufrostpinna.

Nautakjötsklumparnir sem ljónin í Madríd fá til að kæla sig niður eru ekkert voðalega geðslegir.AP/Bernat Armangue

Rándýrin í garðinum hafa líka fengið sína fæðu í frostpinnaformi, selirnir fá þannig fiskifrostpinna en ljónin gæða sér á ísklumpum með nautahakki. 

Auk ísmolafæðunnar sprauta starfsmenn dýrin með köldu vatni til að kæla þau niður.

Í dýragörðum, náttúruverndarsvæðum og griðlöndum dýra vítt og breitt um Bretland hefur einnig þurft að tryggja að dýrin haldist vel vökvuð og þorni ekki upp í steikjandi hitanum. 

Starfsmenn ZSL dýragarðsins í Lundúnum hafa gefið dýrunum frostpinna úr sykurlausu ístei með hnetum og fræjum.

Górilla spígsporar um í ZSL dýragarðinum í Lundúnum með frostklump í hendinni.ZSL London Zoo

„Prímatar eins og górillur og íkornapar elska frostpinna, alveg eins og við,“ sagði Rob Harland, starfsmaður ZSL dýragarðsins í Lundúnum, við BBC. Þá sagði hann að ljónin og flóðhestarnir í garðinum hefðu sín eigin díki til að svamla í á meðan önnur dýr fengju kalda sturtu frá starfsmönnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×