Erlent

Bresk­ur hjálp­ar­starfs­mað­ur lést í hald­i Rúss­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Urey lést í haldi rússneskra aðskilnaðarsinna og Liz Truss, utanríkisráðherra Bretalands, segir að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar.
Paul Urey lést í haldi rússneskra aðskilnaðarsinna og Liz Truss, utanríkisráðherra Bretalands, segir að hinir seku verði dregnir til ábyrgðar. Presidium Network/AP

Paul Urey, breskur hjálparstarfsmaður sem handsamaður var af sveitum rússneskra aðskilnaðarsinna í Úkraínu, er dáinn. Hann er sagður hafa látið lífið í haldi Alþýðulýðveldisins Donetsk og er hann sagður hafa dáið vegna veikinda og álags.

Urey, sem var 45 ára gamall og með sykursýki eitt, var handsamaður í apríl fyrir utan borgina Zaporizhzhia í austurhluta Úkraínu. Með honum var annar tuttugu og tveggja ára breskur hjálparstarfsmaður sem heitir Dylan Healy. Samkvæmt frétt BBC munu þeir hafa verið þar til að bjarga konu sem var föst í borginni vegna innrásar Rússa.

Urey hafði verið ákærður fyrir „málaliðastarfsemi“ en ríkismiðlar Rússlands birtu viðtal við hann þar sem sagðist hafa viljað sjá hvort ástandið í Úkraínu væri eins slæmt og fréttamiðlar sögðu. Óljóst er hvort hann hafi verið þvingaður í viðtalinu en fjölskylda hans segir hegðun hans hafa verið undarlega.

BBC hefur eftir Dariu Morozova, yfirmanni mannréttindamála í Alþýðulýðveldinu svokallaða, að Urey hafi átt í öðrum veikindum og hafi verið í slæmu andlegu ástandi vegna afskiptaleysis yfirvalda í Bretlandi af fangavist hans.

Morozova sakaði yfirvöld í Bretlandi um að útvega Urey ekki nauðsynleg lyf í gegnum Rauða krossinn.

„Fyrir okkar leyti, þrátt fyrir alvarleika meintu brota hans, fékk Paul Urey viðeigandi læknaþjónustu,“ sagði Morozova. Hann hafi þó dáið vegna veikindanna og álagsins þann 10. júlí.

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir yfirvöld í Rússlandi verða að bera fulla ábyrgð á dauða Urey, samkvæmt Sky News. Rússar og leppar þeirra haldi áfram að fremja ódæði í Úkraínu og þeir sem hafi valdið dauða Urey verði dregnir til ábyrgðar.

Dominic Byrne, sem stýrir hjálparsamtökunum Presidium Network, sagði BBC að þeir aðskilnaðarsinnar sem hafi haldið Urey hafi komið í veg fyrir að starfsmenn Rauða krossins og annarra samtaka hafi getað séð Urey. Það hafi verið gert svo enginn gæti séð hvernig farið væri með hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×