Lífið

Ofbýður ráðleggingar á netinu og eitrar innanhúss fyrir lúsmý

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Meindýraeyðirinn Jóhann Ragnarsson vakti athygli fyrir færslu sína í Facebook hópnum Lúsmý á Íslandi en Jóhann segir þar frá góðum árangri sínum, í baráttunni gegn lúsmý, með því að eitra innanhúss. 
Meindýraeyðirinn Jóhann Ragnarsson vakti athygli fyrir færslu sína í Facebook hópnum Lúsmý á Íslandi en Jóhann segir þar frá góðum árangri sínum, í baráttunni gegn lúsmý, með því að eitra innanhúss. 

„Þegar þú ert að eiga við svona kvikindi þá er lágmarkið að þekkja vel til,“ segir Jóhann Ragnarsson meindýraeyðir í samtali við Vísi. 

Segist ofbjóða skottulækningaráðin á netinu

Færslur Jóhanns í Facebook hópnum Lúsmý á Íslandi hafa vakið töluverða athygli en þar lýsir Jóhann góðum árangri sínum í baráttunni gegn lúsmý með því hreinlega að eitra fyrir þeim innandyra. 

Ástæðuna fyrir því að hann ákvað að birta færslur í þessum hópi segir hann vera að honum ofbjóði hreinlega að sjá þessar „skottulækninga ráðleggingar“ sem eru úti um allt á netinu. 

Í fyrri færslu sinni sagði Jóhann frá persónulegri reynslu sinni þegar hann eitraði sumarbústað og í þeirri síðari auglýsti hann svo eftir fjölskyldu sem vildi láta eitra fyrir sig og hann myndi gera það að kostnaðarlausu. Færri komust að en vildu en Jóhann segist þó reyna að verða við kallinu ef hann mögulega getur. 


Fyrri færslan á Facebook:

Gerði smá prufu um helgina. Var á Laugarvatni, um helgina, en þar hefur verið hellingur af lúsmýi að hrekkja bæði þá sem eru í bústöðum og í hjólhýsum/tjaldvögnum. Ég eitraði bústaðinn og furðulegt nokk, þá var enginn bitinn og það sem meira var, er það að við sváfum með opinn glugga. Í bústað þarna rétt við hliðina voru vandræði. Ég gerði prufu að eitra 6 hjólhýsi og tjaldvagn fyrir tveimur árum og það var sama sagan, aðeins eitt bit í þessum vögnum.

Skiptar skoðanir á eitrun innandyra

Jóhann segist upplifa að fólki finnist það einhvers konar tabú að ræða við meindýraeyði þegar kemur að lúsmýi og það sæki frekar í ýmiskonar húsráð en að leita til fagaðila. Sjálfur fékk hann mikil viðbrögð við færslunni og segist hann líklega muna hafa í nægu að snúast í sumarfríinu að hlaupa til og eitra heimili fólks og bústaði.

Ekki eru þó allir meindýraeyðar sammála um það hvort að eitrun innandyra sé ákjósanlegur kostur og segir meindýraeyðirinn Guðmundur Óli Scheving í samtali við Vísi að sjálfur myndi hann aldrei eitra innandyra í þessum tilgangi. 

Ég hugsa að það sé ekki líklegt til árangurs og myndi aldrei gera það sjálfur. Ég myndi alltaf frekar ráðleggja fólki að nota bara glugganetin og hátíðnitækin. Það hefur reynst vel og virkar!

Guðmundur segir eitrið geta verið hættulegt innandyra og það dugi skammt til að halda flugunni frá.  

Þegar blaðamaður segir Jóhanni frá svari Guðmundar og spyr afhverju stafi þessar ólíku skoðanir meindýraeyða slær Jóhann á létta strengi. 

„Ég myndi bara segja við þann meindýraeyði: Fáðu þér þá bara aðra vinnu kallinn minn!“ segir hann og hlær. En heldur svo áfram..

 „Þetta er bara ekki rétt, þetta virkar mjög vel þegar þetta er gert rétt og vandað til verka. Það þarf að vera fagmaður sem sér um eitrunina og rétt efni sem er notað.“

Allir verði að taka ábyrgð

Aðspurður hvaða efni hann hefur verið að nota við eitrunina segir hann eitrið heita Deltasect og vera leyfisskylt og einungis ætlað fagmönnum.

„Þetta er mikið notað eitur þegar eitra á fyrir kakkalökkum, veggjalúsum, flugum og öðru en þetta efni hefur reynst mjög vel því það endist í allt að tólf vikur og skilur til dæmis ekki eftir sig neina bletti.

Getur eitrið ekki reynst hættulegt?

„Ég ætla ekki að fullyrði neitt um það og auðvitað er þetta kannski ekki fyrir alla en þetta efni á að vera hættulítið og hefur lítil sem engin áhrif á fullorðið fólk. Þegar fagmaður sér svo um eitrunina þá að sjálfsögðu forðast það að eitra á þá staði sem börn gætu náð til. Svo er þetta auðvitað á ábyrgð hvers og eins að fara varlega en þetta hefur reynst mörgum mjög vel.“

Á hvaða staði eitrar þú ef þú ert að eitra fyrir lúsmýi?

„Ég tek öll fög, allar hurðir og öll hugsanleg op. Svo er líka mikilvægt að eitra á þá staði sem flugurnar geta safnast saman fyrir utan húsið, eins og á ljósum.“

Aldrei opna út þegar það er ljós inni

 Jóhann segir það að sjálfsögðu hjálpa mikið til að vera með góð og þétt net fyrir öllum gluggum og svo þurfi fólk að læra að umgangast lúsmýið. 

„Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það hversu mikilvægt það er að muna það að opna aldrei út ef það er ljós innan dyra, það er ef fólk er statt á lúsmýsvæði. Lúsmýið leitar þá strax inn og í miklu meira mæli ef það er ljós inni.“ 

Tekur gagnrýninni fagnandi

Jóhann er menntaður meindýraeyðir þó að hann starfi ekki við það í dag nema í hjáverkum, eins og hann orðar það. Hann hafi þó leyfið og sé vel að sér þegar kemur að lúsmýi. 

 Ég hef mest verið að gera þetta fyrir ættingja, vini og kunningja og meira svona af því að ég tek alveg út fyrir það að sjá allar þessar myndir af fólki sem er útbitið og greinilega sárþjáð. Þetta á ekki að þurfa að vera svona!

Ekki voru allir jafn hrifnir af færslu Jóhanns á Facebook en sjálfur segist hann ekki taka neikvæðar athugasemdir eða gagnrýni nærri sér. Það sé hans trú að fólk þurfi að vera ósammála. 

„Maður lærir ekkert ef maður hefur bara Já-fólk í kringum sig, það hafa allir gott af gagnrýni til að hugsa meira og velta hlutunum betur fyrir sér. Við þurfum ekkert alltaf að vera sammála og við verðum bara að virða skoðanir hvers annars,“ segir Jóhann að lokum. 


Tengdar fréttir

Ekki sniðugt að klappa lúsmýi frekar en geitungum

„Ég var að lenda í fyrsta skipti í þessari pest, þessu lúsmý. Ég hef séð fullt af myndum en hef alltaf sloppið við þetta, en ég slapp ekki núna,“ segir útvarpsmaðurinn Rikki G í Brennslunni í gær.

Plöntur sem fæla frá lúsmý

Það eru til ákveðnar plöntur sem hreinlega fæla frá lúsmý og ýmis skordýr. Vala Matt kynnti sér málið í síðustu viku í Íslandi í dag á Stöð 2 en umræddar plöntur eru einnig fallegar.

Vestfirðingar treysta á ekkert lúsmý í sumar

Það er meira en brjálað að gera hjá starfsfólki Vestfjarðarstofu að skipuleggja sumarið fyrir ferðamenn og aðstoða þá á ýmsan hátt, enda búist við metári í fjölda ferðamanna á svæðinu í sumar. Stofan vinnur líka að fjölbreyttum verkefnum í tengslum við byggðaþróun sem og atvinnuþróun á Vestfjörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×